Markvörðurinn Dida hjá AC Milan þarf aðeins að sitja af sér eins leiks bann í Meistaradeildinni í stað tveggja eftir að áfrýjun ítalska félagsins náði fram að ganga í dag.
Dida var upphaflega dæmdur í tveggja leikja bann fyrir leikræna tilburði sína í Glasgow á dögunum, en hann lét þá bera sig af velli á börum eftir að áhorfendi sem hljóp inn á völlinn danglaði höndinni í hann.
Þetta þýðir að Dida missir aðeins af leik Milan við Shakhtar Donetsk á miðvikudaginn en verður svo löglegur í leiknum þar á eftir.