Sænski Handelsbanken hagnaðist um rúma 2,5 milljarða króna, jafnvirði 24 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er sextán prósenta aukning frá sama tíma í fyrra og lítillega yfir væntingum markaðsaðila.
Handelsbanken er sá fyrsti af norrænu bönkunum til að birta uppgjör sitt fyrir fjórðunginn, að sögn greiningardeildar Landsbankans sem tekur fram að í hagnaðartölunum sé tillit tekið til sölunnar á líftryggingahluta bankans SPP til norska tryggingafélagsins Storebrand.
Landsbankinn bendir á í Vegvísi sínum í dag, að undirliggjandi rekstur hafi batnað verulega enda hafi vaxtatekjur og þóknanatekjur bankans verið umfram væntingar. Afkoma af fjárfestingum var hins vegar undir spám, að sögn Landsbankans.