Fótbolti

Rijkaard hrósar Eiði Smára

NordicPhotos/GettyImages

Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, var mjög ánægður með frammistöðu Eiðs Smára Guðjohnsen í leiknum gegn Rangers í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Leiknum lauk með 0-0 jafntefli en Rijkaard sagði úrslitin mjög ásættanleg. "Við stjórnuðum ferðinni allan leikinn en náðum ekki að skora. Þeir voru mjög skipulagðir varnarlega og sterkir í loftinu, svo það var erfitt að brjóta þá niður," sagði Hollendingurinn. Hann hrósaði leikmönnum sínum fyrir frammistöðuna.

"Henry og Ronaldinho börðust vel og hvað Ronaldinho varðar, er ekki hægt að einblína á einn leikmann," sagði hann og varði þá ákvörðun sína að tefla Puyol fram í stöðu hægribakvarðar.

"Puyol var vinnusamur í stöðunni og mér fannst vörnin vinna vel í að fylla skarð þeirra sem voru meiddir," sagði Rijkaard og geymdi sérstakt hrós fyrir Eið Smára.

"Ég sagði fyrir leikinn að þetta yrði ekki auðveldur leikur fyrir Eið þar sem hann er ekki kominn alveg í flæði eftir langa fjarveru. Hann hefur hinsvegar lagt hart að sér og unnið vel fyrir félaga sína. Það var mjög mikilvægt að njóta líkamlegs styrks hans og hann á skilið hrós fyrir vinnusemi sína og hugarfar í þessar 90 mínútur," sagði þjálfarinn í viðtali við skoska fjölmiðla eftir leikinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×