Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft tók inn 4,29 milljarða bandaríkjadala í hagnað, jafnvirði 261 milljarð íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi, sem er fyrsti rekstrarfjórðungur fyrirtækisins. Þetta er heilum 23 prósentum meira en á sama tíma í fyrra og skrifast á mikla sölu á Windows Vista, nýjasta stýrikerfi fyrirtækisins og tölvuleikinn Halo 3.
Þá námu tekjur hugbúnaðarrisans 13,76 milljörðum dala, sem er 27 prósentum meira en á sama tíma í fyrra.
Þetta er langtum betri afkoma en markaðsaðilar höfðu reiknað með og telja greinendur að næsti fjórðungur verði mjög góður hjá fyrirtækinu.
Gengi hlutabréfa í Microsoft tók kipp eftir að afkomutölurnar lágu fyrir við lokun hlutabréfamarkaða í Bandaríkjunum í gærkvöldi og stukku upp um ellefu prósent eftir langa kyrrstöðu. Gengi bréfa í fyrirtækinu stendur nú í 35 dölum á hlut.