Agustin Binya hjá Benfica segist sjá mikið eftir ljótri tæklingu sinni á Scott Brown hjá Celtic í leik liðanna í fyrrakvöld. Brown þurfti að fara meiddur af velli eftir árásina og Binya fékk að líta beint rautt spjald fyrir verknaðinn.
"Ég reyndi að ná til Brown eftir leikinn af því ég vildi biðja hann afsökunar. Ég mun reyna að hringja í hann og tala við hann, en mig langar að nota þetta tækifæri og biðja hann afsökunar opinberlega," sagði leikmaðurinn í samtali við breska ríkissjónvarpið.
Binya gæti átt yfir höfði sér langt leikbann eftir tæklinguna ljótu og fær að vita örlög sín í þeim efnum þann 15. þessa mánaðar.
Smelltu á tengilinn hér fyrir neðan til að lesa frétt um málið og sjá myndband af tæklingunni.