Barcelona hefur tryggt sér sigur í E-riðli Meistaradeildar Evrópu en baráttan um annað sætið stendur á milli Glasgow Rangers og Lyon. Bæði lið eru með sjö stig og mætast einmitt í lokaumferðinni í hreinum úrslitaleik.
Rangers nægir jafntefli í þeim leik til að ná öðru sætinu.
„Það var slæmt að tapa þessum leik gegn Stuttgart en við getum þó huggað okkur við það að við höfum þetta enn í okkar höndum," sagði Walter Smith, knattspyrnustjóri Rangers.
„Það hefði litlu breytt þó leikurinn hefði farið jafntefli. Leikurinn gegn Lyon verður úrslitaleikur og það verður virkilega erfitt en skemmtilegt verkefni."