Handbolti

Júlíus: Þvílíkt stoltur af liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari kvenna.
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari kvenna. Mynd/GVA

Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari var í skýjunum með árangur Íslands í undankeppni EM 2008 í handbolta. Ísland vann í dag sigur á sterku liði Hvíta Rússlands.

„Þetta var mjög sætt og ljúft. Þetta var flottur leikur og ég er þvílíkt stoltur af liðinu," sagði Júlíus en leikurinn í morgun var síðasti leikur Íslands í riðlinum. Síðar í dag kemur í ljóst hvort liðið lendir í fyrsta eða öðru sæti riðilsins en það skiptir í sjálfu sér engu máli. Aðalatriðið er að Ísland er komið í umspil um laust sæti á EM á næsta ári og var það reyndar ljóst fyrir leik dagsins.

Júlíus segir að liðið hafi byrjað skelfilega þegar það tapaði stórt fyrir heimamönnum í Litháen. Síðan þá hafa hins vegar fjórir leikir unnist í röð.

„Það hefur verið virkilega ánægjulegt að sjá hversu góð stígandi var í liðinu. Í dag unnum við hörkulið og til marks um það eru tíu leikmenn í liði Hvíta Rússlands yfir 1,80 metra á hæð - þar af sex yfir 1,84. Við erum með einn leikmann sem er yfir 1,80," sagði Júlíus.

„Við vissum lítið hvað biði okkar þegar við mættum Litháum. En þegar við sáum hin liðin spila gerðum við okkur betur grein fyrir styrkleikum og veikleikum þeirra. Við sáum að við áttum góðan möguleika gegn Ísrael og Grikklandi og að leikurinn við Bosníu yrði hreinn úrslitaleikur fyrir okkur. Það gekk eftir. Sigurinn í dag var svo stór plús fyrir okkur."

Hann segir að það hafi verið mikilvægt að vinna í dag, fyrir sjálfstraust leikmanna og móralinn í hópnum. „Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei áður unnið fjóra leiki í röð og er nú búið að yfirstíga þá hindrun. Það skipti okkur gríðarlega miklu máli að klára riðilinn með sigri," sagði Júlíus.

Dregið verður í umspilsleikina síðar í mánuðinum en leikirnir fara fram í vor. Úrslitakeppnin sjálf fer svo fram í Makedóníu í byrjun desember á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×