Nú þegar er ljóst að A-landslið karla í knattspyrnu mun leika tíu leiki á næsta ári og er útlit fyrir að þeim gæti fjölgað.
Í dag var tilkynnt að Ísland leikur vináttulandsleik gegn Wales á Laugardalsvelli þann 28. maí næstkomandi. Þar með er ljóst að Ísland mun að minnsta kosti leika sex vináttu- og æfingalandsleiki og fjóra leiki í undankeppni HM 2010.
Þá er ekki ólíklegt að tveir til þrír leikir muni bætast við á næsta ári. Mörg landslið spila æfingaleiki í byrjun júní og Ísland á enn tvo lausa alþjóðlega leikdaga á síðari hluta ársins, þann 20. ágúst og 19. nóvember.
Aðeins einu sinni áður hefur íslenska landsliðið spilað þrettán leiki á einu og sama árinu. Það var árið 1988 er liðið tók ekki einungis þátt í undankeppni HM 1990 heldur einnig undankeppni Ólympíuleikanna sem fóru fram það árið.
Þá lék landsliðið einnig sex vináttulandsleiki árið 1988.
Á undanförnum 20 árum hefur íslenska karlalandsliðið leikið að meðaltali 8,9 landsleiki á ári. Mest árið 1988 sem fyrr segir en tvívegis hefur liðið einungis komið saman fyrir sex leiki á einu og sama árinu. Það var fyrst árið 1989 og svo aftur árið 2006.
Ísland hefur ekki spilað tíu landsleiki eða fleiri á einu og sama árinu síðan árið 2001 er landsliðið lék samtals ellefu leiki. Þá lék liðið fjóra vináttulandsleiki og ellefu leiki í undankeppni HM 2002.
Leikir íslenska landsliðsins 2008:
2.-6. febrúar: Æfingamót á Möltu ásamt heimamönnum, Hvít-Rússum og Armenum.
16. mars: Vináttulandsleikur við Færeyjar í Kórnum í Kópavogi.
26. mars: Vináttulandsleikur við Slóvakíu ytra.
28. maí: Vináttulandsleikur við Wales á Laugardalsvelli.
6. september: Noregur-Ísland í undankeppni HM 2010.
10. september: Ísland-Skotland í undankeppni HM 2010.
11. október: Holland-Ísland í undankeppni HM 2010.
15. október: Ísland - Makedónía í undankeppni HM 2010.