Auðvald sem sat að svikráðum Jón Kaldal skrifar 22. desember 2007 21:42 Fyrir réttum tveimur árum skrifaði Matthías Johannessen skorinorða ádrepu um nútímann í Lesbók Morgunblaðsins. Eins og gjarnt er um eldri menn fannst skáldinu og ritstjóranum fyrrverandi mörgu hafa hnignað í áranna rás. Þar á meðal fannst honum lítið koma til nýju kapítalistanna sem rutt höfðu sér til rúms á sviði íslensks athafnalífs á kostnað þeirra gömlu, sem Matthías þekkti og vann fyrir suma. Þeir voru "gott auðvald" að mati Matthíasar. Nú þekkjum við lítið til innrætis þeirra kapítalista sem mest eru áberandi í viðskiptalífinu um þessar mundir; þeir eru örugglega engir englar, en hitt vitum við að þeir gömlu voru alls ekki allir góðir. Verðsamráð olíufyrirtækjanna og metsekt Eimskipafélagsins fyrir að misnota markaðsráðandi aðstöðu sína taka af öll tvímæli um hversu "gott" gamla auðvaldið var. Þetta eru þau fyrirtæki sem voru krúnudjásnin í veldi auðvalds Matthíasar. Ekki skal því haldið fram að vondir menn hafi stýrt þessum fyrirtækjum. En þeir voru að minnsta kosti ekki góðir, nema við sjálfa sig og þá sem voru innvígðir og innmúraðir í þeirra hirð. Sannarlega voru þeir ekki góðir við viðskiptavini sína, almenning í landinu. Við hann sátu þeir á svikráðum og voru brotin "alvarleg og til þess fallin að valda atvinnulífinu og almenningi miklu samfélagslegu tjóni," eins og segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins í máli Eimskipafélagsins. Frá því brotin voru framin hefur Eimskipafélagið skipt oftar en einu sinni um eigendur og stjórnendur. Frammi fyrir lögunum er félagið þó sami lögaðilinn og skal því bera sektina. Skal engan undra að nýir eigendur vilji ekki una þeirri niðurstöðu. Það er einkennilegt til þess að hugsa að þeir einstaklingar sem lögðu á ráðin um brot Eimskipafélagsins geta í dag látið eins og þau komi þeim nánast ekki við. Góðu heilli hnykkja nýlegar breytingar á samkeppnislögunum á ábyrgð stjórnenda fyrirtækja vegna brota á lögunum. Þar með á að vera búið að taka af allan vafa um að þeir geti ekki skákað í skjóli þess að "brot hafi verið framin af félögum sem þeir störfuðu hjá," eins og lögmaður eins olíuforstjóranna hélt fram til varnar skjólstæðingi sínum fyrr á árinu. Allir viti borni menn sjá auðvitað að félög geta ekki haft sjálfstæðan vilja. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að þeir stjórnendur félaga sem verða uppvísir að brotum á samkeppnislögum axli á því persónulega ábyrgð. Forstjóri Eimskipafélagsins á brotaárunum var Ingimundur Sigurpálsson, núverandi forstjóri Íslandspósts og formaður Samtaka atvinnulífsins. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins hlýtur að vera aðilum að þeim samtökum umhugsunarefni. Það eflir hvorki traust né trú á atvinnulífi landsins að þar sé í forsæti einstaklingur sem hefur að mati Samkeppniseftirlitsins orðið uppvís að því að skipuleggja svo alvarleg brot á samkeppnislögum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Fyrir réttum tveimur árum skrifaði Matthías Johannessen skorinorða ádrepu um nútímann í Lesbók Morgunblaðsins. Eins og gjarnt er um eldri menn fannst skáldinu og ritstjóranum fyrrverandi mörgu hafa hnignað í áranna rás. Þar á meðal fannst honum lítið koma til nýju kapítalistanna sem rutt höfðu sér til rúms á sviði íslensks athafnalífs á kostnað þeirra gömlu, sem Matthías þekkti og vann fyrir suma. Þeir voru "gott auðvald" að mati Matthíasar. Nú þekkjum við lítið til innrætis þeirra kapítalista sem mest eru áberandi í viðskiptalífinu um þessar mundir; þeir eru örugglega engir englar, en hitt vitum við að þeir gömlu voru alls ekki allir góðir. Verðsamráð olíufyrirtækjanna og metsekt Eimskipafélagsins fyrir að misnota markaðsráðandi aðstöðu sína taka af öll tvímæli um hversu "gott" gamla auðvaldið var. Þetta eru þau fyrirtæki sem voru krúnudjásnin í veldi auðvalds Matthíasar. Ekki skal því haldið fram að vondir menn hafi stýrt þessum fyrirtækjum. En þeir voru að minnsta kosti ekki góðir, nema við sjálfa sig og þá sem voru innvígðir og innmúraðir í þeirra hirð. Sannarlega voru þeir ekki góðir við viðskiptavini sína, almenning í landinu. Við hann sátu þeir á svikráðum og voru brotin "alvarleg og til þess fallin að valda atvinnulífinu og almenningi miklu samfélagslegu tjóni," eins og segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins í máli Eimskipafélagsins. Frá því brotin voru framin hefur Eimskipafélagið skipt oftar en einu sinni um eigendur og stjórnendur. Frammi fyrir lögunum er félagið þó sami lögaðilinn og skal því bera sektina. Skal engan undra að nýir eigendur vilji ekki una þeirri niðurstöðu. Það er einkennilegt til þess að hugsa að þeir einstaklingar sem lögðu á ráðin um brot Eimskipafélagsins geta í dag látið eins og þau komi þeim nánast ekki við. Góðu heilli hnykkja nýlegar breytingar á samkeppnislögunum á ábyrgð stjórnenda fyrirtækja vegna brota á lögunum. Þar með á að vera búið að taka af allan vafa um að þeir geti ekki skákað í skjóli þess að "brot hafi verið framin af félögum sem þeir störfuðu hjá," eins og lögmaður eins olíuforstjóranna hélt fram til varnar skjólstæðingi sínum fyrr á árinu. Allir viti borni menn sjá auðvitað að félög geta ekki haft sjálfstæðan vilja. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að þeir stjórnendur félaga sem verða uppvísir að brotum á samkeppnislögum axli á því persónulega ábyrgð. Forstjóri Eimskipafélagsins á brotaárunum var Ingimundur Sigurpálsson, núverandi forstjóri Íslandspósts og formaður Samtaka atvinnulífsins. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins hlýtur að vera aðilum að þeim samtökum umhugsunarefni. Það eflir hvorki traust né trú á atvinnulífi landsins að þar sé í forsæti einstaklingur sem hefur að mati Samkeppniseftirlitsins orðið uppvís að því að skipuleggja svo alvarleg brot á samkeppnislögum.