Stóraukin íslensk varnarumsvif: Tímamótalöggjöf Þorsteinn Pálsson skrifar 17. janúar 2008 06:00 Frumvarp ríkisstjórnarinnar til varnarmálalaga markar um margt tímamót. Um er að ræða fyrstu heildstæðu löggjöfina um stjórnsýslu varnarmála. Hún felur einnig í sér að Íslendingar axla í fyrsta skipti ábyrgð á eigin hernaðarlegri starfsemi. Jafnframt geymir frumvarpið lagalega umgjörð um þau stórauknu íslensku umsvif á varnarmálasviðinu sem ákveðin hafa verið eftir að fastri viðveru bandaríska varnarliðsins lauk. Utanríkisráðuneytið verður nú með formlegum hætti varnarmálaráðuneyti. Það er rökrétt og eðlileg skipan í litlu stjórnkerfi og miðað við eðli og umfang viðfangsefnisins. Þá er það skynsamleg skipun mála að koma á fót sérstakri varnarmálastofnun. Rekstri íslenska loftvarnakerfisins, undirbúningi hervarnaæfinga og samskiptum við hernaðarstofnanir bandalagsþjóðanna og öðrum skyldum verkefnum er betur fyrir komið í sérstakri varnarmálastofnun en ráðuneyti. Með þessu móti svipar stjórnsýslunni aukheldur betur en ella til þess sem er hjá bandalagsþjóðunum sem hafa eigin her. Í reynd er Alþingi þegar búið að taka ákvarðanir um þau auknu varnarumsvif sem frumvarpið kveður á um. Það var gert með afgreiðslu fjárlaga. Réttara hefði þó verið að snúa ákvörðunarferlinu við og ræða og ákveða stefnumótunina í varnarmálum á löggjafarsamkomunni áður en fjárheimildirnar voru samþykktar. Að réttu lagi á efnisumræða um svo viðamikla stefnumótun ekki að fara fram eftir á. Að vísu var fyrri ríkisstjórn í þeirri kröppu aðstöðu að þurfa að taka ákvarðanir hratt og skjótt um hvernig brottför varnarliðsins yrði mætt. Allt sýnist það hafa verið vel og skynsamlega ráðið. Í athugasemdum með frumvarpinu er ekki að finna sérstaka röksemdafærslu fyrir þörfinni á auknum íslenskum varnarumsvifum í kjölfar þess að fastri viðveru bandaríska varnarliðsins lauk. Spyrja má: Fól sú breyting ef til vill í sér að umsvif á þessu sviði væru óþörf? Á móti má spyrja: Er ekki eðlilegt að Ísland leggi eitthvað af mörkum til eigin varna og samstarfsins innan Atlantshafsbandalagsins og sýni ákveðinn viðbúnað? Við höfum bæði efnahagslega og þekkingarlega burði til þess að takast á við verkefni eins og þessi. Við getum ekki ætlað öðrum að bera allan kostnað af eigin vörnum. Athugasemdum með frumvarpinu hefði að ósekju mátt fylgja rækilegri reifun á rökum fyrir þessari nýju stefnumótun. Þó að þau liggi að einhverju leyti í augum uppi þarf að ræða þau. Væntanlega mun það hættumat sem nú er unnið að verða framlag til þeirrar umræðu þegar þar að kemur. Ýmsum spurningum má velta upp í tengslum við þessa lagasetningu. Ein er sú hvort rétt væri að friðargæslan félli undir varnarmálastofnun. Önnur lýtur að því hvort ekki væri rétt að fella inn í varnarmálalögin ákvæði sem mæli fyrir um hver taki ákvarðanir og með hvaða hætti ef grípa þarf til aðgerða eða viðbragða á grundvelli varnarsamningsins og eftir atvikum samkvæmt upplýsingum íslenska loftvarnakerfisins. Þó að Íslendingar beri ekki sjálfir vopn rekum við nú hernaðarlega starfsemi á eigin vegum og höfum áfram samning um hervarnir við öflugasta her veraldar. Úrlausnarefnið er að vísu ekki brýnt. En ljóst er að íslensk stjórnvöld geta þurft að taka ákvarðanir um beitingu hervalds. Þá ákvörðun tekur enginn fyrir okkur. Tómarúm í löggjöf um slíkan ákvarðanaferil hefur verið ágalli. Úr því má nú bæta. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun
Frumvarp ríkisstjórnarinnar til varnarmálalaga markar um margt tímamót. Um er að ræða fyrstu heildstæðu löggjöfina um stjórnsýslu varnarmála. Hún felur einnig í sér að Íslendingar axla í fyrsta skipti ábyrgð á eigin hernaðarlegri starfsemi. Jafnframt geymir frumvarpið lagalega umgjörð um þau stórauknu íslensku umsvif á varnarmálasviðinu sem ákveðin hafa verið eftir að fastri viðveru bandaríska varnarliðsins lauk. Utanríkisráðuneytið verður nú með formlegum hætti varnarmálaráðuneyti. Það er rökrétt og eðlileg skipan í litlu stjórnkerfi og miðað við eðli og umfang viðfangsefnisins. Þá er það skynsamleg skipun mála að koma á fót sérstakri varnarmálastofnun. Rekstri íslenska loftvarnakerfisins, undirbúningi hervarnaæfinga og samskiptum við hernaðarstofnanir bandalagsþjóðanna og öðrum skyldum verkefnum er betur fyrir komið í sérstakri varnarmálastofnun en ráðuneyti. Með þessu móti svipar stjórnsýslunni aukheldur betur en ella til þess sem er hjá bandalagsþjóðunum sem hafa eigin her. Í reynd er Alþingi þegar búið að taka ákvarðanir um þau auknu varnarumsvif sem frumvarpið kveður á um. Það var gert með afgreiðslu fjárlaga. Réttara hefði þó verið að snúa ákvörðunarferlinu við og ræða og ákveða stefnumótunina í varnarmálum á löggjafarsamkomunni áður en fjárheimildirnar voru samþykktar. Að réttu lagi á efnisumræða um svo viðamikla stefnumótun ekki að fara fram eftir á. Að vísu var fyrri ríkisstjórn í þeirri kröppu aðstöðu að þurfa að taka ákvarðanir hratt og skjótt um hvernig brottför varnarliðsins yrði mætt. Allt sýnist það hafa verið vel og skynsamlega ráðið. Í athugasemdum með frumvarpinu er ekki að finna sérstaka röksemdafærslu fyrir þörfinni á auknum íslenskum varnarumsvifum í kjölfar þess að fastri viðveru bandaríska varnarliðsins lauk. Spyrja má: Fól sú breyting ef til vill í sér að umsvif á þessu sviði væru óþörf? Á móti má spyrja: Er ekki eðlilegt að Ísland leggi eitthvað af mörkum til eigin varna og samstarfsins innan Atlantshafsbandalagsins og sýni ákveðinn viðbúnað? Við höfum bæði efnahagslega og þekkingarlega burði til þess að takast á við verkefni eins og þessi. Við getum ekki ætlað öðrum að bera allan kostnað af eigin vörnum. Athugasemdum með frumvarpinu hefði að ósekju mátt fylgja rækilegri reifun á rökum fyrir þessari nýju stefnumótun. Þó að þau liggi að einhverju leyti í augum uppi þarf að ræða þau. Væntanlega mun það hættumat sem nú er unnið að verða framlag til þeirrar umræðu þegar þar að kemur. Ýmsum spurningum má velta upp í tengslum við þessa lagasetningu. Ein er sú hvort rétt væri að friðargæslan félli undir varnarmálastofnun. Önnur lýtur að því hvort ekki væri rétt að fella inn í varnarmálalögin ákvæði sem mæli fyrir um hver taki ákvarðanir og með hvaða hætti ef grípa þarf til aðgerða eða viðbragða á grundvelli varnarsamningsins og eftir atvikum samkvæmt upplýsingum íslenska loftvarnakerfisins. Þó að Íslendingar beri ekki sjálfir vopn rekum við nú hernaðarlega starfsemi á eigin vegum og höfum áfram samning um hervarnir við öflugasta her veraldar. Úrlausnarefnið er að vísu ekki brýnt. En ljóst er að íslensk stjórnvöld geta þurft að taka ákvarðanir um beitingu hervalds. Þá ákvörðun tekur enginn fyrir okkur. Tómarúm í löggjöf um slíkan ákvarðanaferil hefur verið ágalli. Úr því má nú bæta.