Fornleifar Einar Már Jónsson skrifar 5. mars 2008 06:00 Fyrir nokkru bar svo við að í ljós kom heilt kvæði eftir forngrísku skáldkonuna Saffó, sem uppi var á sjöttu öld fyrir Krist. Áður þekktu menn brot úr þessu kvæði sem fundist hafði á papýrus í sandinum í Egyptalandi, en nú fannst annað brot á sama hátt og þegar þessi papýrus-rifrildi voru lögð saman var kvæðið komið nokkurn veginn heilt. Ekki vantaði þá nema fáeina stafi sem auðvelt var að setja inn. Þetta vakti mikla athygli, því eftir þessa frægu skáldkonu eru ekki varðveitt nema sárafá heilleg kvæði. Allt annað eru brot. Kvæðið var því þegar birt á forngrísku í venjulegri engilsaxneskri pressu, sem verður að teljast nokkuð sjaldgæft, með því fylgdi einföld og bókstafleg þýðing og ítarlegar skýringar. En fljótlega tóku ýmis ensk skáld að spreyta sig á að þýða þetta kvæði á alvöru ljóðmál, og á Íslandi þýddi Helgi Hálfdánarson kvæðið og birti í Lesbók Morgunblaðsins. Þetta var allt saman merkur menningarviðburður og sigur fornleifafræðinnar.Síðasti hermaðurinnEn nú víkur sögunni annað. Í lok janúar andaðist í Frakklandi háaldraður maður að nafni Louis de Cazenave, sem þá var elstur allra Fransmanna og hafði barist í stríðinu 1914-1918. En þegar hann var allur rann upp fyrir mönnum að þá var ekki nema einn maður eftirlifandi af þeim átta og hálfri milljón hermanna sem tekið höfðu þátt í þeim mikla hildarleik, sem sé allra síðasti franski hermaðurinn úr heimsstyrjöldinni fyrri. Þessi maður hét Lazare Ponticelli, hundrað og tíu ára gamall. Hann hafði boðið sig fram sem sjálfboðaliði þegar árið 1914, aðeins sautján ára að aldri, barist fyrst í franska hernum og síðan ítalska hernum, alveg til stríðsloka, og sloppið þaðan með svo mikið líf að það hefur enst honum í níutíu ár til viðbótar.En þegar þessi fregn barst inn á skrifstofur dagblaðsins „Libération" rifjaðist upp fyrir blaðamönnum, að einhvern tíma í fyrndinni, fyrir óralöngu, sem sé árið 2005, hafði einhver af blaðinu tekið viðtal á segulband, og myndband, við þennan fyrrverandi hermann. Það hafði verið útbúið með ýmsum gömlum myndum, svo og texta, því rödd öldungsins var ekki alltaf skýr, og nú var þetta viðtal orðið sögulegt plagg í meira lagi. Þar að auki var gamli maðurinn í fréttunum. Fyrir nokkru ákvað Chirac, þáverandi forseti, að síðasti hermaðurinn úr heimsstyrjöldinni fyrri skyldi verða greftraður á kostnað ríkisins við mikla viðhöfn í París, og þá hafnaði Lazare Ponticelli því með öllu, ef það skyldi koma í hans hlutskipti að lifa lengst. En nú þegar hann var í raun og veru kominn í þessa stöðu, féllst hann á þetta, með nokkrum semingi þó og með því skilyrði að það yrði allt með virðingu og ekkert húllumhæ. Þetta vakti athygli og þótti hermannlegt. Og á „Libération" fóru menn að leita að viðtalinu.Sandur og tölvurEn nú voru góð ráð dýr. Á öllum þeim óratíma sem liðinn var síðan það var tekið hafði verið skipt tvisvar um tölvukerfi á blaðinu - kannske á svipaðan hátt og Kínverjar hafa tvisvar gert breytingar á letri sínu á tuttugu og einni öld - og af þessu viðtali fannst hvorki tangur né tetur. Forntölvufræðingar voru nú settir í málið, og eftir nokkra leit komust þeir að því að svo virtist sem fræðimaður einn hefði tínt viðtalið upp úr netinu á sínum tíma. Haft var samband við þennan mann í miklu ofboði, en án árangurs. Hann hafði að vísu tekið upp viðtalið, en harði diskurinn á hans eigin tölvu hafði krassað í mars síðastliðnum, og nú var viðtalið ekki lengur fyrir hendi. Það virtist jafn týnt eins og það hefði sokkið niður í sandinn í Egyptalandi. Fræðimaðurinn gat þó vísað forntölvufræðingunum áfram og eftir mikið stríð bar leitin loks árangur, það tókst að hafa upp á þessum ævaforna texta.Þess vegna geta menn nú heyrt frásögn eins og þessa: "Fjörutíu og átta stundum eftir að ég særðist var rifið úr mér sprengjubrotið sem var í höfðinu. Fjórir menn héldu mér meðan læknirinn skar í holdið sem var orðið grænt, því sprengjubrotið var búið að vera þar lengi. Það blæddi mjög mikið. Þegar ég var orðinn betri var ég sendur aftur á víglínuna, þar sem gashylkjum var skotið á okkur. Þeir sem voru á undan okkur voru allir dauðir, kafnaðir. Síðan gekk herflokkur okkar upp á Monte Grappa, þar sem okkur var tilkynnt að brátt yrði friður undirritaður. Við fórum allir upp úr skotgröfunum og lyftum höndunum. Þessu var lokið. Allir voru ánægðir, jafnt Austurríkismenn sem við. Og menn spurðu: Til hvers vorum við að berjast?"Þannig getur fornfræðin ekki einungis grafið upp úr sandinum týnd kvæði frá 6. öld fyrir Krist, heldur jafnvel grafið upp úr gömlum tölvum sögulegt viðtal frá árinu 2005. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun
Fyrir nokkru bar svo við að í ljós kom heilt kvæði eftir forngrísku skáldkonuna Saffó, sem uppi var á sjöttu öld fyrir Krist. Áður þekktu menn brot úr þessu kvæði sem fundist hafði á papýrus í sandinum í Egyptalandi, en nú fannst annað brot á sama hátt og þegar þessi papýrus-rifrildi voru lögð saman var kvæðið komið nokkurn veginn heilt. Ekki vantaði þá nema fáeina stafi sem auðvelt var að setja inn. Þetta vakti mikla athygli, því eftir þessa frægu skáldkonu eru ekki varðveitt nema sárafá heilleg kvæði. Allt annað eru brot. Kvæðið var því þegar birt á forngrísku í venjulegri engilsaxneskri pressu, sem verður að teljast nokkuð sjaldgæft, með því fylgdi einföld og bókstafleg þýðing og ítarlegar skýringar. En fljótlega tóku ýmis ensk skáld að spreyta sig á að þýða þetta kvæði á alvöru ljóðmál, og á Íslandi þýddi Helgi Hálfdánarson kvæðið og birti í Lesbók Morgunblaðsins. Þetta var allt saman merkur menningarviðburður og sigur fornleifafræðinnar.Síðasti hermaðurinnEn nú víkur sögunni annað. Í lok janúar andaðist í Frakklandi háaldraður maður að nafni Louis de Cazenave, sem þá var elstur allra Fransmanna og hafði barist í stríðinu 1914-1918. En þegar hann var allur rann upp fyrir mönnum að þá var ekki nema einn maður eftirlifandi af þeim átta og hálfri milljón hermanna sem tekið höfðu þátt í þeim mikla hildarleik, sem sé allra síðasti franski hermaðurinn úr heimsstyrjöldinni fyrri. Þessi maður hét Lazare Ponticelli, hundrað og tíu ára gamall. Hann hafði boðið sig fram sem sjálfboðaliði þegar árið 1914, aðeins sautján ára að aldri, barist fyrst í franska hernum og síðan ítalska hernum, alveg til stríðsloka, og sloppið þaðan með svo mikið líf að það hefur enst honum í níutíu ár til viðbótar.En þegar þessi fregn barst inn á skrifstofur dagblaðsins „Libération" rifjaðist upp fyrir blaðamönnum, að einhvern tíma í fyrndinni, fyrir óralöngu, sem sé árið 2005, hafði einhver af blaðinu tekið viðtal á segulband, og myndband, við þennan fyrrverandi hermann. Það hafði verið útbúið með ýmsum gömlum myndum, svo og texta, því rödd öldungsins var ekki alltaf skýr, og nú var þetta viðtal orðið sögulegt plagg í meira lagi. Þar að auki var gamli maðurinn í fréttunum. Fyrir nokkru ákvað Chirac, þáverandi forseti, að síðasti hermaðurinn úr heimsstyrjöldinni fyrri skyldi verða greftraður á kostnað ríkisins við mikla viðhöfn í París, og þá hafnaði Lazare Ponticelli því með öllu, ef það skyldi koma í hans hlutskipti að lifa lengst. En nú þegar hann var í raun og veru kominn í þessa stöðu, féllst hann á þetta, með nokkrum semingi þó og með því skilyrði að það yrði allt með virðingu og ekkert húllumhæ. Þetta vakti athygli og þótti hermannlegt. Og á „Libération" fóru menn að leita að viðtalinu.Sandur og tölvurEn nú voru góð ráð dýr. Á öllum þeim óratíma sem liðinn var síðan það var tekið hafði verið skipt tvisvar um tölvukerfi á blaðinu - kannske á svipaðan hátt og Kínverjar hafa tvisvar gert breytingar á letri sínu á tuttugu og einni öld - og af þessu viðtali fannst hvorki tangur né tetur. Forntölvufræðingar voru nú settir í málið, og eftir nokkra leit komust þeir að því að svo virtist sem fræðimaður einn hefði tínt viðtalið upp úr netinu á sínum tíma. Haft var samband við þennan mann í miklu ofboði, en án árangurs. Hann hafði að vísu tekið upp viðtalið, en harði diskurinn á hans eigin tölvu hafði krassað í mars síðastliðnum, og nú var viðtalið ekki lengur fyrir hendi. Það virtist jafn týnt eins og það hefði sokkið niður í sandinn í Egyptalandi. Fræðimaðurinn gat þó vísað forntölvufræðingunum áfram og eftir mikið stríð bar leitin loks árangur, það tókst að hafa upp á þessum ævaforna texta.Þess vegna geta menn nú heyrt frásögn eins og þessa: "Fjörutíu og átta stundum eftir að ég særðist var rifið úr mér sprengjubrotið sem var í höfðinu. Fjórir menn héldu mér meðan læknirinn skar í holdið sem var orðið grænt, því sprengjubrotið var búið að vera þar lengi. Það blæddi mjög mikið. Þegar ég var orðinn betri var ég sendur aftur á víglínuna, þar sem gashylkjum var skotið á okkur. Þeir sem voru á undan okkur voru allir dauðir, kafnaðir. Síðan gekk herflokkur okkar upp á Monte Grappa, þar sem okkur var tilkynnt að brátt yrði friður undirritaður. Við fórum allir upp úr skotgröfunum og lyftum höndunum. Þessu var lokið. Allir voru ánægðir, jafnt Austurríkismenn sem við. Og menn spurðu: Til hvers vorum við að berjast?"Þannig getur fornfræðin ekki einungis grafið upp úr sandinum týnd kvæði frá 6. öld fyrir Krist, heldur jafnvel grafið upp úr gömlum tölvum sögulegt viðtal frá árinu 2005.