Handbolti

Frakkar unnu Spánverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nikola Karabatic reynir skot að marki Spánverja í dag.
Nikola Karabatic reynir skot að marki Spánverja í dag. Nordic Photos / AFP
Frakkar eru komnir hálfa leið til Pekings eftir að hafa unnið Spánverja í undankeppni Ólympíuleikanna í handbolta í dag.

Frakkland vann með fjögurra marka mun, 28-24, og var mikið fagnað af heimamönnum í lokin en riðillinn fer fram í París.

Nicola Karabatic var markahæstur Frakkanna með sjö mörk en Joel Abati kom næstur með sex.

Garcia Lorenzana skoraði sex mörk fyrir Spánverja og Roland Entrerrios fjögur.

Í gær vann Frakkland sigur á Túnis, 34-25, og er því með fullt hús stiga. Spánn vann í gær sigur á Norðmönnum, 33-31. Frakkar mega tapa fyrir Norðmönnum á morgun með þriggja marka mun til að tryggja sér farseðilinn til Peking.

Síðar í dag mætir Noregur liði Túnis. Ef Norðmenn vinna þann leik og leggja svo Frakka á morgun verða liðin bæði með fjögur stig, eins og væntanlega Spánn sem þyrfti þá að vinna Túnis á morgun.

Efstu tvö liðin í riðlinum komast á Ólympíuleikana og ræðst niðurröðunin á árangur í innbyrðisviðureignum.

Noregi nægir að vinna Frakka með eins marks mun á morgun og sitja þá Spánverjar eftir. Spánverjar þurfa því að treysta á að Frakkar leggi Norðmenn á morgun. Ef Norðmenn vinna hins vegar viðureignina þarf minnst fjögurra marka sigur svo að Spánverjar fari áfram á kostnað Frakka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×