Gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum tók mikla dýfu í dag eftir mikla verðhækkun á hráolíu og lélegar tölur um atvinnuþátttöku vestanhafs.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mældist 5,5 prósent í maí sem er talsvert meira en menn höfðu reiknað með.
Þá rauk verð á hráolíu upp um ellefu dali á tunnu. Það fór í rúma 139 dali og hefur aldrei verið hærra.
Helsta skýringin á verðhækkuninni er skýrsla frá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley um verðþróun á svarta gullinu. Þar sagði að útlit sé fyrir að olíuverðið geti farið í 150 dali á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí næstkomandi.
Hlut að máli á sömuleiðis vaxandi spenna á milli Ísraelsmanna og Írana.
Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 3,13 prósent og Nasdaq-vísitalan um rétt tæp þrjú prósent.