Mývargur Einar Már Jónsson skrifar 30. apríl 2008 06:00 Í Frakklandi hefur frumrannsóknir í vísindum nokkuð borið á góma að undanförnu. Hafa vísindamenn við hina opinberu vísindastofnun CNRS risið upp og gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að láta þá iðju sitja á hakanum, en beina fjármagninu í staðinn að hagnýtum rannsóknum alls konar, kannske í samvinnu við fyrirtæki og samkvæmt óskum þeirra. Benda vísindamennirnir á að frumrannsóknir séu nauðsynlegur grundvöllur hagnýtra rannsókna og á þeim verði uppfinningamenn að byggja. Aldrei sé hægt að vita fyrirfram hvert þær kunni að leiða, það sýni sig oftsinnis að rannsóknir á sviðum sem virðast vera órafjarri dagsins önn leiði til uppfinninga á tækjum sem mikið hagnýtt gagn sé að. Um þetta sýnir sagan mörg dæmi. Maður gæti t.d. haldið að rannsóknir á hátíðnihljóðum komi venjulegu mannlífi lítið við, því þetta eru hljóð sem hafa svo háa tíðni að ekkert mannseyra getur heyrt þau og haft af þeim nokkurt gagn þannig séð. Eigi að síður kom í ljós, strax og þessi hljóð höfðu verið uppgötvuð, að þau höfðu notagildi í meira lagi. Veiðiþjófar gátu nefnilega notfært sér þau til að búa til sérstaka blístru til að flauta á hunda sína, hún gaf frá sér hljóð sem seppahlustir námu glögglega en ekki nein eyru veiðivarða, hversu sperrt sem þau voru. Var þetta þjófunum vitanlega til mikilla hagsbóta. UnglingabresturKannske er þetta dæmi fjarri amstri venjulegs fólks nú á dögum. En nýlega notfærði uppfinningamaður í Wales sér þessi sömu hátíðnihljóð til að hanna tæki sem snertir líf almennings svo um munar, enda hefur það nú breiðst út um England, Holland, Belgíu og Sviss eins og logi yfir akur og heldur nú innreið sína í Frakkland. Þetta tæki lætur lítið yfir sér, það er lítill kassi með hátalara, en trixið er þeim mun snjallara: úr hátalaranum koma nefnilega skruðningar sem fullorðnir menn geta ekki heyrt og hafa því engin óþægindi af, en særa eyru unglinga hins vegar á allróttækan hátt. Ef menn vilja af einhverjum ástæðum losa sig við unglinga úr nágrenninu er tækið því hið þarfasta þing til að stugga rækilega við þeim. Á ensku er það kallað „mývargur", en á íslensku köllum vér það „unglingabrest", sbr. hrossabrest. Þeir sem auglýsa tækið á netinu draga skýrt fram gagnsemi þess: „Á verslun þín í erfiðleikum vegna ófélagslegrar hegðunar unglinga? Verður þú fyrir óþægindum vegna unglinga sem hópast saman á götunni og gera þér lífið leitt? Mývargurinn leysir vandann." Þetta tæki byggir á þeirri líkamlegu staðreynd, að næmi manna á hátíðnihljóðum minnkar með aldrinum. Börn geta heyrt hljóð sem eru 20.000 hertz, um tvítugt fer þetta næmi mjög að minnka, og fullorðinn maður heyrir ekki hljóð sem eru hærri en 8.000 hertz. Tækið gefur frá sér hljóð sem eru 16.000 hertz, og trufla þau engan fullorðinn mann sem getur rabbað við náungann, lesið í blaði eða fengið sér blund alveg óáreittur. Öðru máli gegnir um unglinga. Uppfinningamaðurinn velski gerði tilraun með tækið til að sýna blaðamönnum fram á ágæti þess. Hann valdi þrjár þrettán ára stúlkur og setti þær í tveggja metra fjarlægð frá hátalaranum. Eftir fimm mínútur fóru þær að gretta sig og önsuðu ekki lengur ef á þær var yrt (það sannar svo sem ekki neitt), og eftir tíu mínútur sást í hæla þeirra. Blaðamennirnir gátu að sjálfsögðu ekki dæmt um tækið ex auditu, en þeim var sagt að í unglingaeyrum hljómaði það líkt og þjófabjalla í bifreið og væri jafn gersamlega óþolandi og sarg á rammfalska fiðlu eða vein í ketti sem togað er í skottið á. Furðuleg staðreyndUnglingabresturinn, sem færði höfundi sínum nóbelsverðlaun fyrir skoplegustu uppfinningu ársins árið 2006 (það er fullorðinnabrandari), kostar nálægt þúsund evrum, en eigi að síður hafa nú selst fjögur þúsund tæki af þessu tagi á Englandi einu. Víða hefur það þó komið af stað nokkrum umræðum, í Hollandi og Sviss vildu yfirvöldin banna það, en án árangurs, og nú er umræðan komin til Frakklands. Nýlega spurði franska útvarpsstöðin „Evrópa I" hlustendur álits og sýndist sitt hverjum. En það kom í ljós að mat manna á tækinu fór nokkuð eftir því á hvaða hæð þeir bjuggu, þeir sem voru á neðstu hæð litu svo á að það væri þarfaþing hið mesta, þeir sem voru á næstu hæð fyrir ofan voru tregir, þeir sem bjuggu þar fyrir ofan voru á móti, og þeir sem bjuggu næst fyrir neðan þakið fordæmdu það með hinum sterkustu orðum. En í þessum umræðum í Frakklandi benti einhver á þá staðreynd sem ýmsum fannst furðuleg og nánast ótrúleg: níutíu og átta af hundraði unglinga eru ekki óknyttapésar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun
Í Frakklandi hefur frumrannsóknir í vísindum nokkuð borið á góma að undanförnu. Hafa vísindamenn við hina opinberu vísindastofnun CNRS risið upp og gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að láta þá iðju sitja á hakanum, en beina fjármagninu í staðinn að hagnýtum rannsóknum alls konar, kannske í samvinnu við fyrirtæki og samkvæmt óskum þeirra. Benda vísindamennirnir á að frumrannsóknir séu nauðsynlegur grundvöllur hagnýtra rannsókna og á þeim verði uppfinningamenn að byggja. Aldrei sé hægt að vita fyrirfram hvert þær kunni að leiða, það sýni sig oftsinnis að rannsóknir á sviðum sem virðast vera órafjarri dagsins önn leiði til uppfinninga á tækjum sem mikið hagnýtt gagn sé að. Um þetta sýnir sagan mörg dæmi. Maður gæti t.d. haldið að rannsóknir á hátíðnihljóðum komi venjulegu mannlífi lítið við, því þetta eru hljóð sem hafa svo háa tíðni að ekkert mannseyra getur heyrt þau og haft af þeim nokkurt gagn þannig séð. Eigi að síður kom í ljós, strax og þessi hljóð höfðu verið uppgötvuð, að þau höfðu notagildi í meira lagi. Veiðiþjófar gátu nefnilega notfært sér þau til að búa til sérstaka blístru til að flauta á hunda sína, hún gaf frá sér hljóð sem seppahlustir námu glögglega en ekki nein eyru veiðivarða, hversu sperrt sem þau voru. Var þetta þjófunum vitanlega til mikilla hagsbóta. UnglingabresturKannske er þetta dæmi fjarri amstri venjulegs fólks nú á dögum. En nýlega notfærði uppfinningamaður í Wales sér þessi sömu hátíðnihljóð til að hanna tæki sem snertir líf almennings svo um munar, enda hefur það nú breiðst út um England, Holland, Belgíu og Sviss eins og logi yfir akur og heldur nú innreið sína í Frakkland. Þetta tæki lætur lítið yfir sér, það er lítill kassi með hátalara, en trixið er þeim mun snjallara: úr hátalaranum koma nefnilega skruðningar sem fullorðnir menn geta ekki heyrt og hafa því engin óþægindi af, en særa eyru unglinga hins vegar á allróttækan hátt. Ef menn vilja af einhverjum ástæðum losa sig við unglinga úr nágrenninu er tækið því hið þarfasta þing til að stugga rækilega við þeim. Á ensku er það kallað „mývargur", en á íslensku köllum vér það „unglingabrest", sbr. hrossabrest. Þeir sem auglýsa tækið á netinu draga skýrt fram gagnsemi þess: „Á verslun þín í erfiðleikum vegna ófélagslegrar hegðunar unglinga? Verður þú fyrir óþægindum vegna unglinga sem hópast saman á götunni og gera þér lífið leitt? Mývargurinn leysir vandann." Þetta tæki byggir á þeirri líkamlegu staðreynd, að næmi manna á hátíðnihljóðum minnkar með aldrinum. Börn geta heyrt hljóð sem eru 20.000 hertz, um tvítugt fer þetta næmi mjög að minnka, og fullorðinn maður heyrir ekki hljóð sem eru hærri en 8.000 hertz. Tækið gefur frá sér hljóð sem eru 16.000 hertz, og trufla þau engan fullorðinn mann sem getur rabbað við náungann, lesið í blaði eða fengið sér blund alveg óáreittur. Öðru máli gegnir um unglinga. Uppfinningamaðurinn velski gerði tilraun með tækið til að sýna blaðamönnum fram á ágæti þess. Hann valdi þrjár þrettán ára stúlkur og setti þær í tveggja metra fjarlægð frá hátalaranum. Eftir fimm mínútur fóru þær að gretta sig og önsuðu ekki lengur ef á þær var yrt (það sannar svo sem ekki neitt), og eftir tíu mínútur sást í hæla þeirra. Blaðamennirnir gátu að sjálfsögðu ekki dæmt um tækið ex auditu, en þeim var sagt að í unglingaeyrum hljómaði það líkt og þjófabjalla í bifreið og væri jafn gersamlega óþolandi og sarg á rammfalska fiðlu eða vein í ketti sem togað er í skottið á. Furðuleg staðreyndUnglingabresturinn, sem færði höfundi sínum nóbelsverðlaun fyrir skoplegustu uppfinningu ársins árið 2006 (það er fullorðinnabrandari), kostar nálægt þúsund evrum, en eigi að síður hafa nú selst fjögur þúsund tæki af þessu tagi á Englandi einu. Víða hefur það þó komið af stað nokkrum umræðum, í Hollandi og Sviss vildu yfirvöldin banna það, en án árangurs, og nú er umræðan komin til Frakklands. Nýlega spurði franska útvarpsstöðin „Evrópa I" hlustendur álits og sýndist sitt hverjum. En það kom í ljós að mat manna á tækinu fór nokkuð eftir því á hvaða hæð þeir bjuggu, þeir sem voru á neðstu hæð litu svo á að það væri þarfaþing hið mesta, þeir sem voru á næstu hæð fyrir ofan voru tregir, þeir sem bjuggu þar fyrir ofan voru á móti, og þeir sem bjuggu næst fyrir neðan þakið fordæmdu það með hinum sterkustu orðum. En í þessum umræðum í Frakklandi benti einhver á þá staðreynd sem ýmsum fannst furðuleg og nánast ótrúleg: níutíu og átta af hundraði unglinga eru ekki óknyttapésar.