Körfubolti

Jakob: Þeir fengu allt of auðveldar körfur

Jakob Sigurðarson tók í sama streng og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins í kvöld eftir tapið gegn Svartfellingum í Laugardalshöll. Hann segir fyrri hálfleikinn hafa orðið liðinu að falli.

Íslenska liðið virkaði nokkuð vankað í fyrri hálfleik, en mótherjarnir voru vissulega engir byrjendur í fræðunum og segja má að 80-66 sigur liðsins hafi aldrei verið í hættu.

"Við byrjuðum illa og vorum allt of mikið að hugsa um hvað við ætluðum að reyna að gera í stað þess að láta leikinn koma til okkar. Þetta var það helsta sem breyttist hjá okkur í síðari hálfleik," sagði Jakob í samtali við Vísi.

"Við vissum að þeir myndu sækja mikið inn í teig og þeir gerðu það - og mér fannst þeir lifa dálítið á vítunum í fyrri hálfleik. Þeir fengu allt of mörg víti og auðveldar körfur, en mér fannst við laga það aðeins í síðari hálfleiknum. Fyrri hálfleikurinn hjá okkur gerði eiginlega útslagið en við náðum að vinna síðari hálfleikinn og það er jákvætt."

Ísland leikur næst við Austurríki ytra á laugardaginn og Jakob segir íslenska liðið klárt í þann slag.

"Okkur hlakkar til að mæta Austurríkismönnum. Við þekkjum þá vel og höfum oft spilað við þá. Við vitum að með góðum leik eigum við að vinna þá, eins og við gerðum hérna heima í fyrra. Við erum bjartsýnir og staðráðnir í að vinna næsta leik."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×