Það var heldur betur líf og fjör í Meistaradeild Evrópu í kvöld og mikið skorað. Alls 36 mörk voru skoruð í átta leikjum en aldrei áður hefur verið skorað jafnmikið á einu Meistaradeildarkvöldi.
Þremur umferðum er nú lokið í helmingi af riðlum keppninnar en neðar á síðunni má sjá öll úrslit kvöldsins.
Dimitar Berbatov átti stórleik fyrir Manchester United sem vann Glasgow Celtic 3-0. Berbatov skoraði tvö fyrstu mörk United en var reyndar rangstæður í þeim báðum. Wayne Rooney er sjóðandi heitur og hefur skorað í sjö leikjum í röð en hann gerði þriðja markið.
Celtic er eina lið Meistaradeildarinnar sem ekki hefur náð að skora í riðlakeppninni. Í hinum leik E-riðilsins vann Villareal sigur á danska liðinu Álaborg 6-3 í miklum markaleik. Llorente skoraði þrennu fyrir spænska liðið. Nokkuð ljóst er að United og Villareal fara upp úr riðlinum.
Það var ótrúlegur leikur í F-riðli þar sem franska liðið Lyon vann 5-3 útisigur á Steaua Búkarest eftir að hafa verið undir í leiknum. Miroslav Klose, Zé Roberto og Schweinsteiger skoruðu mörk Bayern München sem vann Fiorentina 3-0.
Í G-riðli gerði Arsenal góða ferð til Tyrklands og vann 5-2 útisigur. Emmanuel Adebayor, Abu Diaby, Theo Walcott, Aaron Ramsey og Alexandre Song skoruðu mörk enska liðsins. Dynamo Kiev vann útisigur á Porto í hinum leik riðilsins.
Í H-riðli var stórleikur á dagskrá. Juventus vann 2-1 sigur á Real Madrid. Alessandro Del Piero og Amauri komu Juventus í 2-0 áður en Ruud van Nistelrooy minnkaði muninn.
E-riðill:
Man Utd - Celtic 3-0
Villareal - AaB 6-3
Staðan:
1. Man Utd, 7 stig (+6 í markatölu)
2. Villareal, 7 (+4)
3. Celtic, 1 (-4)
4. AaB, 1 (-6)
F-riðill:
Bayern München - Fiorentina 3-0
Steaua Búkarest - Lyon 3-5
Staðan:
1. Bayern Münch, 7 stig (+4 í markatölu)
2. Lyon, 5 (+2)
3. Fiorentina, 2 (-3)
4. Steaua Búkar, 1 (-3)
G-riðill:
Fenerbahce - Arsenal 2-5
Porto - Dynamo Kiev 0-1
Staðan:
1. Arsenal, 7 stig (+7 í markatölu)
2. Dynamo Kiev, 5 (+1)
3. Porto, 3 (-3)
4. Fenerbahce, 1 (-5)
H-riðill:
Zenit St Pétursborg - BATE 1-1
Juventus - Real Madrid 2-1
Staðan:
1. Juventus, 7 stig (+2 í markatölu)
2. Real Madrid, 6 (+1)
3. BATE, 2 (-2)
4. Zenit, 1 (-2)