Handbolti

Hreiðar: Var gráti næst inn á vellinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Allir þessir menn - Alexander, Ólafur, Vignir og Hreiðar - áttu frábæran leik í dag.
Allir þessir menn - Alexander, Ólafur, Vignir og Hreiðar - áttu frábæran leik í dag. Nordic Photos / AFP

Hreiðar Guðmundsson sagði að hann hefði verið gráti næst inn á vellinum þegar hann áttaði sig á því að íslenska liðið væri á leið á Ólympíuleikana.

„Þetta er bara ekki hægt!" sagði hann í sigurtón eftir leikinn í samtali við Rúv. Spurður um andstæðinga sína í leiknum, sænsku markverðina Peter Gentzel og Tomas Svensson sagði hann að þeir væru báðir handboltagoðsagnir.

„Hvað er hægt að biðja um það betra eftir að hafa átt svona leik gegn þeim. Ég komst bara í eitthvað „zone"," sagði Hreiðar.

„Ég áttaði mig á því hvað væri að gerast þegar ein og hálf mínúta var eftir. Þá kom geðshræringin og ég var gráti næst inn á vellinum."

Það fékkst ekki mikið af viti upp úr Guðjóni Val Sigurðssyni enda hann búinn að vinna ótrúlegt afrek ásamt félögum sínum. Hann hældi þó einmitt þeim.

„Þetta er frábær stund fyrir okkur og dæmigert fyrir karakterinn í þessu liði. Við þjöppuðum okkur saman og spiluðum frábærlega. Ég vil ekki lýsa því hvað er að gerast upp í klefa."

„Ég veit annars ekkert hvað ég á að segja. Næstu þrír dagar verða bara „blackout" og svo held ég að það séu einhverjir leikir framundan - ég bara man það ekki."

Um næstu tvær helgar mætir íslenska handboltalandsliðið Makedóníu heima og að heiman um sæti á HM í Króatíu í janúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×