Hvorki Wayne Rooney né Nemanja Vidic æfðu með Manchester United í morgun en liðið mætir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á morgun.
Um er að ræða síðari viðureign liðanna en þeirri fyrri lauk með markalausu jafntefli á heimavelli Börsunga.
Báðir leikmenn meiddust í leik Chelsea og United um helgina. Rooney meiddist á mjöðm er hann skoraði í leiknum en Vidic fékk högg í andlitið er Didier Drogba fór með hné sitt í hann.
Þeir eru því báðir tæpir fyrir leikinn á morgun sem og Yaya Toure, leikmaður Barcelona. Það gæti opnað fyrir þann möguleika að Eiður Smári Guðjohnsen verði í byrjunarliði Börsunga á morgun.
Þó er allt eins líklegt að Andrés Iniesta verði færður á miðjuna og Thierry Henry verði í sókninni með þeim Lionel Messi og Samuel Eto'o.
Carles Puyol tók út leikbann í fyrri viðureign liðanna og verður því í vörn liðsins í fjarveru Rafael Marquez sem verður í leikbanni á morgun.