Handbolti

Egyptar héldu jöfnu gegn Evrópumeisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hussein Zaki fær hér óblíðar mótttökur hjá dönsku varnarmönnunum.
Hussein Zaki fær hér óblíðar mótttökur hjá dönsku varnarmönnunum. Nordic Photos / AFP

Það urðu afar athyglisverð úrslit í B-riðli í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking er Danmörk og Egyptaland gerðu jafntefli, 23-23. Liðin leika með Íslandi í riðli.

Danir voru með frumkvæðið lengst af í fyrri hálfleik og leiddu í hlénu með einu marki, 11-10. Danir héldu því áfram í þeim síðari og náðu mest þriggja marka forystu, í stöðunni 18-15.

En Egyptar neituðu að játa sig sigraða og komust yfir þegar þrjár og hálf mínúta var til leiksloka, 21-20. Þeir héldu framkvæðinu eftir það en Lars Christiansen jafnaði metin, 23-23, þegar sextán sekúndur voru eftir.

Egyptar héldu því í síðustu sóknina í leiknum og átti Hussein Zaky möguleika á að tryggja þeim sigur en skot hans var varið.

Christiansen skoraði flest mörk Dana, sex talsins. Jesper Jensen skoraði fjögur og þeir Joachim Boldsen og Hans Lindberg þrjú hver. Kasper Hvidt varði átta skot í markinu.

Markahæstur hjá Egyptum var Ahmed El Ahmar með átta mörk. Zaky skoraði fimm og Hassan Yousry fjögur. Mohamed Nakib átti stórleik í markinu og varði sautján skot.

Í lokaleik A-riðils í dag vann Pólland sigur á Kína, 33-19. Mariusz Jurasik skoraði átta mörk fyrir Pólland.

Pólland, Frakkland og Króatía sigruðu í sínum leikjum í dag í A-riðli og eru því með tvö stig hvert. Spánverjar eru án stiga eftir tapið fyrir Króötum í morgun, rétt eins og Brasilía og Kína.

Það voru óvæntari úrslit í B-riðlinum. Þýskaland og Ísland eru á toppnum með tvö stig eftir sína sigra og Danmörk og Egyptaland koma næst með eitt stig hvort. Rússland og Suður-Kórea eru stigalaus.

Næst verður keppt í handbolta karla á aðfaranótt þriðjudags og fram eftir hádegi.

Þriðjudagurinn 12. ágúst:

01.00 Brasilía - Króatía (A-riðill)

02.45 Egyptaland - Rússland (B-riðill)

06.00 Kína - Frakkland (A-riðill)

07.45 Spánn - Pólland (A-riðill)

11.00 Suður-Kórea - Danmörk (B-riðill)

12.45 Ísland - Þýskaland (B-riðill)




Tengdar fréttir

Frábær sigur á Rússum - Myndir

Íslenska handboltalandsliðið fékk óskabyrjun á Ólympíuleikunum í Peking með því að vinna sigur á Rússum, 33-31.

Króatía vann fyrstu viðureignina

Króatía vann sigur á Spánverjum í fyrstu handboltaviðureign karla á Ólympíuleikunum í Peking, 31-29, eftir að hafa haft fimm marka forystu í hálfleik, 16-11.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×