Viðskipti erlent

Alcoa eignast álver Elkem í skiptasamning við Orkla

Alcoa og Orkla hafa gert með sér skiptasamning þannig að Alcoa eignast að fullu álver Elkem en Orkla eignast að fullu Sapa Profiles í Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt um málið á vefsíðunni E24.no áttu Alcoa og Orkla fyrrgreind félög í sameiningu. Nú hefur Orkla yfirtekið 45,45% eignarhlut Alcoa í Sapa og Alcoa hefur yfirtekið 50% eignarhlut Orkla í Elkem Aluminium.

Í tilkynningu um málið til kauphallarinnar í Osló segir að skipti þessi séu gerð nánast á sléttu og engir fjármagnsflutningar séu í samningum.

Alcoa hefur átt 50% í Elkem í næstum 50 ár en Elkem rekur nú tvö álver í Mosjöen og Lista.

Orkla hefur átt hlut í Sapa um nokkurt skeið en það félag framleiðir álprófíla og aðrar vörur úr áli í Bandaríkjunum.

Alcoa rekur nú Fjarðarál á Reyðarfirði og hefur áform um að reisa annað álver á Bakka við Húsavík.

Orkla er eitt stærstra skráða félagið í Noregi með blandaða starfsemi í áliðnaði, matvælaframleiðslu og fjármálastarfsemi.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×