Kína í stað evru Þorsteinn Pálsson skrifar 14. apríl 2008 06:00 Hverju ríki er mikilvægt að ákvarða stöðu sína í samfélagi þjóðanna. Breytingar og þróun laga hana að nýjum aðstæðum. Fótfestan er hins vegar að öllu jöfnu stöðugri og felst í langtíma hagsmunum og hugsjónum. Eftir stjórnarskrá lýðveldisins er forseti Íslands æðsti handhafi framkvæmdavalds í utanríkismálum þó að öll raunveruleg völd og ábyrgð í þeim efnum hvíli á utanríkisráðherra. Í því ljósi verður að skoða ræðu forsetans á smáríkjaráðstefnu í Andorra í síðustu viku. Meðan utanríkisráðherra tekur ekki annað fram verður að líta á hana sem stefnu ríkisstjórnarinnar sem ráðherrann hefur ábyrgst. Kjarninn í utanríkispólitík ríkisstjórnarinnar eins og forsetinn lýsir honum felst í því að alþjóðavæðingin hafi fært smáríkjum meiri möguleika til hagvaxtar en stórum ríkjum. Jafnframt hafi smáríki fleiri tækifæri til framfara með því að standa utan bandalaga og með gerð tvíhliða samninga um viðskipti við stærri ríki. Að því er Ísland varðar sérstaklega kemur sú afstaða ríkisstjórnarinnar fram í ræðu forsetans að staða Íslands sé vel tryggð með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og þeim möguleika að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína eins og nú er unnið að. En er tvíhliða fríverslunarsamningur við Kína í raun lausn á utanríkispólitískri stöðu Íslands á nýrri öld? Alþjóðavæðingin hefur vissulega opnað tækifæri fyrir smáríki sem stærri ríki nutu að einhverju leyti áður í krafti meira áhrifavalds. Það er rétt mat. Hitt er rangt hvort sem litið er til Evrópu, Asíu eða Ameríku að stór ríki eða ríkjabandalög hafi í minna mæli verið þátttakendur í hagvaxtarskeiði síðustu tveggja áratuga. Fyrirkomulag tvíhliða fríverslunarsamninga er afturhvarf að því leyti að það færir stórum ríkjum á ný meira áhrifavald um það hvernig milliríkjaverslun er skipað. Fríverslun sem byggð er á fjölþjóðlegum samningum er líklegri til að tryggja almennar leikreglur og jafnari stöðu ríkja og fyrirtækja á heimsmarkaði. Þó að kínversk stjórnvöld vilji nú gera fríverslunarsamning við Ísland er ekkert sem bendir til þess að við munum til lengri tíma ná betri viðskiptastöðu á þeim markaði en Evrópusambandið. Líklegra er að pólitísk langtímasjónarmið fremur en viðskiptaleg búi að baki vilja stjórnvalda í Kína til þess að semja við Ísland á undan öðrum Evrópulöndum. Síðustu atburðir gefa fremur ástæðu til að skoða þau pólitísku sjónarmið en að draga þá ályktun að með slíkum samningi muni Ísland tryggja framtíðarstöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Langsamlega stærsti hluti utanríkisviðskipta Íslands er í Evrópu. Útilokun á aðild að Evrópusambandinu kemur í veg fyrir að við getum tekið upp mynt sem líkleg er til að vera umgjörð nauðsynlegs stöðugleika í peningamálum. Ef utanríkisstefnan á að byggjast á sveigjanleika sem gerir okkur kleift að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína en útilokar upptöku evru er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Það væri léleg hagsmunagæsla sem bæri vott um utanríkispólitík í vegvillum. Bjarni Benediktsson skilgreindi öðrum fremur á sinni tíð þá fótfestu sem utanríkispólitíkin stendur á. Hún fólst í bandalagi með þeim þjóðum sem næst okkur standa um menningu, pólitík, varnir og viðskipti. Í því efni hefur ekkert breyst. Stöðuna þarf hins vegar að laga að nýjum aðstæðum og breyttum tímum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Hverju ríki er mikilvægt að ákvarða stöðu sína í samfélagi þjóðanna. Breytingar og þróun laga hana að nýjum aðstæðum. Fótfestan er hins vegar að öllu jöfnu stöðugri og felst í langtíma hagsmunum og hugsjónum. Eftir stjórnarskrá lýðveldisins er forseti Íslands æðsti handhafi framkvæmdavalds í utanríkismálum þó að öll raunveruleg völd og ábyrgð í þeim efnum hvíli á utanríkisráðherra. Í því ljósi verður að skoða ræðu forsetans á smáríkjaráðstefnu í Andorra í síðustu viku. Meðan utanríkisráðherra tekur ekki annað fram verður að líta á hana sem stefnu ríkisstjórnarinnar sem ráðherrann hefur ábyrgst. Kjarninn í utanríkispólitík ríkisstjórnarinnar eins og forsetinn lýsir honum felst í því að alþjóðavæðingin hafi fært smáríkjum meiri möguleika til hagvaxtar en stórum ríkjum. Jafnframt hafi smáríki fleiri tækifæri til framfara með því að standa utan bandalaga og með gerð tvíhliða samninga um viðskipti við stærri ríki. Að því er Ísland varðar sérstaklega kemur sú afstaða ríkisstjórnarinnar fram í ræðu forsetans að staða Íslands sé vel tryggð með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og þeim möguleika að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína eins og nú er unnið að. En er tvíhliða fríverslunarsamningur við Kína í raun lausn á utanríkispólitískri stöðu Íslands á nýrri öld? Alþjóðavæðingin hefur vissulega opnað tækifæri fyrir smáríki sem stærri ríki nutu að einhverju leyti áður í krafti meira áhrifavalds. Það er rétt mat. Hitt er rangt hvort sem litið er til Evrópu, Asíu eða Ameríku að stór ríki eða ríkjabandalög hafi í minna mæli verið þátttakendur í hagvaxtarskeiði síðustu tveggja áratuga. Fyrirkomulag tvíhliða fríverslunarsamninga er afturhvarf að því leyti að það færir stórum ríkjum á ný meira áhrifavald um það hvernig milliríkjaverslun er skipað. Fríverslun sem byggð er á fjölþjóðlegum samningum er líklegri til að tryggja almennar leikreglur og jafnari stöðu ríkja og fyrirtækja á heimsmarkaði. Þó að kínversk stjórnvöld vilji nú gera fríverslunarsamning við Ísland er ekkert sem bendir til þess að við munum til lengri tíma ná betri viðskiptastöðu á þeim markaði en Evrópusambandið. Líklegra er að pólitísk langtímasjónarmið fremur en viðskiptaleg búi að baki vilja stjórnvalda í Kína til þess að semja við Ísland á undan öðrum Evrópulöndum. Síðustu atburðir gefa fremur ástæðu til að skoða þau pólitísku sjónarmið en að draga þá ályktun að með slíkum samningi muni Ísland tryggja framtíðarstöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Langsamlega stærsti hluti utanríkisviðskipta Íslands er í Evrópu. Útilokun á aðild að Evrópusambandinu kemur í veg fyrir að við getum tekið upp mynt sem líkleg er til að vera umgjörð nauðsynlegs stöðugleika í peningamálum. Ef utanríkisstefnan á að byggjast á sveigjanleika sem gerir okkur kleift að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína en útilokar upptöku evru er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Það væri léleg hagsmunagæsla sem bæri vott um utanríkispólitík í vegvillum. Bjarni Benediktsson skilgreindi öðrum fremur á sinni tíð þá fótfestu sem utanríkispólitíkin stendur á. Hún fólst í bandalagi með þeim þjóðum sem næst okkur standa um menningu, pólitík, varnir og viðskipti. Í því efni hefur ekkert breyst. Stöðuna þarf hins vegar að laga að nýjum aðstæðum og breyttum tímum.