Hljómsveitin Ghostigital hefur gefið út nýtt lag sem nefnist Hoovering Hoover Skates, eða Svífandi ryksuguskautar. Fjallar textinn um uppfinningamann sem er í skýjunum yfir nýjasta sköpunarverki sínu. Listahópurinn Weird Girls hefur búið til myndband við lagið þar sem hjólaskautar leika stórt hlutverk.
Næstu tónleikar Ghostigital verða á Iceland Airwaves í kvöld á Tunglinu. Á morgun heldur sveitin síðan til London þar sem hún spilar á hátíðinni Frieze Art Fair. Þar hefur galleríið Kling & Bang sett upp barinn Sirkus og mun Ghostigital spila þar á laugardag og sunnudag.
Nóg er um að vera hjá Ghostigital því í seinustu viku gaf hún þjóðinni endurhljóðblöndun Gus Gus af laginu Hvar eru peningarnir mínir? í tilefni af fjármálakreppunni. Fram undan hjá sveitinni er svo útgáfa á nýrri plötu, Aero, sem hún tók upp með Skúla Sverrissyni og Finnboga Péturssyni. Einnig spilar sveitin í desember á hátíðinni Nightmare Before Christmas ásamt Mugison og fjölda erlendra hljómsveita.