Alex Ferguson var ánægður með úrslitin á Nou Camp í kvöld og neitaði að kenna Ronaldo um að hans mönnum tókst ekki að skora í kvöld.
Leiknum lauk með markalausu jafntefli en Cristiano Ronaldo misnotaði vítaspyrnu strax á þriðju mínútu leiksins.
„Hann var óheppinn," sagði Ferguson. „Kannski kom vítið of snemma í leiknum."
Hann sagði einnig að sínir menn hefðu varist vel en hefðu mátt skapa meira á hinum enda vallarins.
„En þeir sköpuðu ekki mörg færi. Við vorum með mjög góða einbeitingu í varnarvinnu okkar. Við hefðum átt að gera betur þegar við vorum með boltann og fengum nokkur tækifæri til að sækja hratt á þá en gáfum boltann frá okkur. En 0-0 gefur okkur frábært tækifæri til að koamst áfram."

