Hannes Þ. Sigurðsson skoraði annað marka Sundsvall sem tapaði 2-3 á heimavelli gegn Gefle í sænska boltanum í kvöld. Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur en eftir þetta tap blasir ekkert annað en fall við Íslendingaliðinu Sundsvall.
Hannes byrjaði leikinn óvænt á bekknum en Ari Freyr Skúlason var hinsvegar í byrjunarliðinu. Sundsvall er sem fyrr í næst neðsta sæti deildarinnar en fjórar umferðir eru eftir og fimm stig upp í Ljungskile sem er sæti ofar.
Sigurður Jónsson og lærisveinar í Djurgården töpuðu 3-0 fyrir Hammarby í kvöld en öll mörkin komu á tíu mínútna kafla í seinni hálfleik. Djurgården er í áttunda sæti deildarinnar en Hammarby komst upp í sjötta sætið. Þá vann Örebro 3-1 sigur á Helsingborg í kvöld.