Haraldur Freyr Guðmundsson og félagar í Álasundi héldu í dag sæti sínu í norsku úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið Sogndal í umspili um laust sæti í deildinni.
Álasund varð í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð og mætti Sogndal, sem varð í fjórða sæti B-deildarinnar, í tveimur leikjum um laust sæti í úrvalsdeildinni.
Álasund vann fyrri leikinn örugglega á útivelli, 4-1, og þann síðari á heimavelli í kvöld, 3-1. Samanlögð úrslit voru því 7-2.
Haraldur Freyr lék allan leikinn í liði Álasunds í dag en það var Tor Hogne Aaröy sem skoraði öll mörk liðsins í fyrri hálfleik í dag.