Tveir stuðningsmenn ítalska úrvalsdeildarfélagsins Juventus létust í umferðarslysi í dag. Þeir voru í rútu sem var á leið á Ólympíuleikvanginn í Tórínó en Juventus tekur á móti Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Rútan var fullsetin af stuðningsmönnum Juventus frá Sviss sem voru á leið á leikinn. Eftir því sem fregnir herma mun bílstjórinn hafa misst stjórn á bifreiðinni sem ók inn í byggingu.
Tíu manns eru alvarlega slasaðir og voru þeir fluttir á sjúkrahús. Þó er frekari fregna beðið af slysstað og enn er óljóst hvort leiktíma leiksins verður breytt.
