Fótbolti

Wenger: Við förum áfram

NordcPhotos/GettyImages

Arsene Wenger segist viss um að hans menn í Arsenal hafi það sem til þarf til að bera sigurorð af Liverpool í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

"Ég vil ekki hugsa of langt fram í tímann," sagði Wenger í samtali við Sky eftir hádegið, en hann var eðlilega spurður út í törnina sem Arsenal stendur í um svipað leiti og liðið mætir Liverpool í Meistaradeildinni.

"Við gerum þetta skref fyrir skref. Við slógum AC Milan út úr keppninni sem var í sjálfu sér mikil hindrun. Ef við ætlum alla leið þurfum við að slá út liðið sem vann og liðið sem lék til úrslita á síðustu leiktíð. Við vorum með nógu gott lið til að slá út Evrópumeistarana svo við ættum að geta unnið Liverpool líka," sagði Wenger og sagði einvígið við Liverpool enn eina áskorunina fyrir sína menn.

"Þetta er áhugaverð áskorun og gott tækifæri til að ná stöðugleika eftir þrjá leiki gegn Liverpool. Þetta verða okkur mjög mikilvægir leikir því verður mikilvægt að byrja vel og reyna að vinna fyrsta leikinn. Auðvitað vill maður vinna þá alla þegar öllu er á botninn hvolft," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×