Handbolti

Góð byrjun hjá Degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari austurríska landsliðsins.
Dagur Sigurðsson, þjálfari austurríska landsliðsins. Mynd/HAGENpress/Leo Hagen

Dagur Sigurðsson stýrði sínum fyrsta leik með austurríska landsliðinu í dag er liðið tapaði fyrir Svíum, 30-26, á æfingamóti í Innsbruck.

Austurríska landsliðið hefur hingað til ekki verið hátt skrifað en það þótti standa vel undir væntingum í dag og var Dagur ánægður með sína menn í leikslok, eftir því sem kemur fram á handball-welt.de.

Austurríki byrjaði mun betur og komst í 5-0 en Svíar skoruðu sitt fyrsta mark eftir rúmlega sjö mínútna leik. Þeim tókst svo að jafna metin og ná forystunni í leiknum.

Heimamenn létu þó ekki til segjast og var staðan jöfn í hálfleik, 15-15. Svíar reyndu að hrista Austurríkismenn af sér í síðari hálfleik en allt kom fyrir ekki. Staðan var enn jöfn, 24-24, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Þá sýndu Svíar hins vegar hversu sterka einstaklinga þeir eru með í sínum röðum og þeir kláruðu einfaldlega leikinn. Austurríska landsliðið þótti hins vegar sýna afar góða liðsheild og mikinn styrk, bæði í vörn og sókn.

Á morgun mæta svo Austurríki liði Þjóðverja sem unnu Túnisbúa í dag, 28-21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×