Eftirlegukindur Þorvaldur Gylfason skrifar 29. maí 2008 06:00 Margir virðast líta svo á, að innganga Íslands í ESB þurfi að bíða þess, að Sjálfstæðisflokkurinn sjái sig um hönd. Þessi skoðun hvílir á þeirri hugsun, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft stjórnarforustu fyrir þjóðinni nær allan lýðveldistímann og hann einn geti leitt Ísland inn í ESB líkt og hann leiddi Ísland inn í Nató á sínum tíma. Ég er á öðru máli. Ég lít svo á, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með ábyrgðarlausu og vítaverðu háttalagi sínu undangengin ár fyrirgert forustuhlutverki sínu og verðskuldi ekki þá biðlund, sem sumir telja rétt eða nauðsynlegt að sýna honum nú í Evrópumálinu. Hér eru rökin. ForsaganÞað orð fór af Sjálfstæðisflokknum á fyrri tíð, að honum væri treystandi fyrir stjórn efnahagsmála. Þessi skoðun hvíldi á tveim stoðum. Í fyrsta lagi áttu heilbrigð markaðsbúskaparsjónarmið eftir 1960 greiðari aðgang en áður að Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum, sem mynduðu viðreisnarstjórnina og skáru upp herör gegn haftabúskap fyrri ára. Í annan stað var efnahagsmálatilbúnaður harðra andstæðinga sjálfstæðismanna í Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi veikur. Framsóknarmenn höfðu í ljósi hagsmuna Sambandsins lítinn hug á hagkvæmum markaðsbúskap og börðust af hörku gegn flestum efnahagsumbótum viðreisnaráranna. Í Alþýðubandalaginu var ástandið litlu skárra: þar var nánast stöðutákn að hafa ekkert vit á efnahagsmálum. Í fyrsta skiptið, sem Alþýðubandalagið stýrði fjármálaráðuneytinu 1980-83, rauk verðbólgan upp í 83 prósent á ári. Sjálfstæðismenn gátu baðað sig í ljómanum, sem stafaði af getuleysi hinna á þessu sviði og sundurþykkju. Þetta er nú liðin tíð. Þegar Alþýðubandalagið stýrði fjármálaráðuneytinu öðru sinni 1988-91, var fjármálastjórnin í lagi, og þá komst aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu á dagskrá gegn ábyrgðarlausri og afhjúpandi andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Þá hafði ný kynslóð tekið við forustu Framsóknarflokksins og máð af honum megnustu andstöðuna við markaðsbúskap. Andstæðingarnir höfðu tekið framförum. Nýliðin tíðVandi Sjálfstæðisflokksins reyndist sá, að ný forustukynslóð flokksins, eftirstríðskynslóðin, bar ekki nógu glöggt skynbragð á efnahagsmál og brást þeim vonum, sem við hana voru bundnar. Nýja kynslóðin var eins og léleg eftirlíking hinnar eldri. Hún gapti upp í brezka íhaldsmenn og bandaríska repúblikana - Bush og kompaní! - og gleypti allt hrátt og varð um leið viðskila við systurflokkana á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu. Eftir samfellda ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins í sautján ár er verðbólgan enn hin mesta í allri Evrópu. Það mætti halda, að gömlu kommarnir séu komnir aftur í fjármálaráðuneytið. Það er ekki heil brú í skýringum sjálfstæðismanna í stjórnarráðinu og Seðlabankanum á þessum óförum: þeir kenna ýmist erlendum samsærismönnum um ástandið og heimta rannsókn eða skella skuldinni á tímabundið gengisfall án skilnings á því, að krónan var of hátt skráð fyrir, eða benda á erlendar verðhækkanir án sýnilegs skilnings á, að þá hefði verðbólgan í nálægum löndum aukizt jafnmikið og hér heima. Rétta skýringin er þó auðvitað hin sama og ævinlega: aðhalds- og ábyrgðarleysi í stjórn innlendra ríkisfjármála og peningamála. Ríkissjóður er nú ekki aflögufær nema hann taki erlent lán. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er brot af því, sem hann þyrfti að vera. Við þetta bætist annað, sem fengi fyrri foringja flokksins til að snúa sér við í gröfinni. Sjálfstæðisflokkurinn notaði fyrst aflakvótakerfið og síðan einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja til að mylja ásamt Framsóknarflokknum undir einkavini sína og vandamenn og lagði með því móti grunninn að þeirri hugsun, að stjórnmálastéttin geti með sjálftöku lyft kjörum sínum langt upp fyrir kjör venjulegs fólks. Þetta var hugsunin á bak við eftirlaunalögin illræmdu 2003 og einnig á bak við síaukna misskiptingu, sem ríkisstjórnin hefur þó ekki enn fengizt til að viðurkenna. Hvernig gat Sjálfstæðisflokkurinn sokkið svo djúpt? Mér verður hugsað til Suður-Ameríku, þar sem ófyrirleitnir, spilltir og illa innrættir lýðskrumarar þöndu efnahagslífið með erlendum lántökum til að kaupa sér fylgi, en það reyndist skammgóður vermir. Nú stendur Sjálfstæðisflokkurinn í sömu sporum, rúinn trúverðugleika og trausti. Flokksmenn mikluðust árum saman af góðri hagstjórn og börðu sér á brjóst án sýnilegs skilnings á því, að innlendar og erlendar skuldir fólksins og fyrirtækjanna í landinu ógna nú afkomu þeirra sem aldrei fyrr. Ballið er búið. Næsta skrefÓbreytt hagstjórnarfar felur í sér skylduaðild almennings að vogunarsjóði Sjálfstæðisflokksins. Frjálshugaðir menn í flokknum þurfa að leysa sig úr viðjum gömlu flokksklíkunnar og bjóðast á eigin forsendum til samstarfs við aðra innan þings og utan um að undirbúa án frekari tafar umsókn um aðild Íslands að ESB. Þannig liggur beinast við að reyna að endurvekja traust umheimsins á íslenzku efnahagslífi eftir það, sem á undan er gengið. Þegar samningur um aðild liggur fyrir, verður hann borinn undir atkvæði þjóðarinnar. Hún ein ræður. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Margir virðast líta svo á, að innganga Íslands í ESB þurfi að bíða þess, að Sjálfstæðisflokkurinn sjái sig um hönd. Þessi skoðun hvílir á þeirri hugsun, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft stjórnarforustu fyrir þjóðinni nær allan lýðveldistímann og hann einn geti leitt Ísland inn í ESB líkt og hann leiddi Ísland inn í Nató á sínum tíma. Ég er á öðru máli. Ég lít svo á, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með ábyrgðarlausu og vítaverðu háttalagi sínu undangengin ár fyrirgert forustuhlutverki sínu og verðskuldi ekki þá biðlund, sem sumir telja rétt eða nauðsynlegt að sýna honum nú í Evrópumálinu. Hér eru rökin. ForsaganÞað orð fór af Sjálfstæðisflokknum á fyrri tíð, að honum væri treystandi fyrir stjórn efnahagsmála. Þessi skoðun hvíldi á tveim stoðum. Í fyrsta lagi áttu heilbrigð markaðsbúskaparsjónarmið eftir 1960 greiðari aðgang en áður að Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum, sem mynduðu viðreisnarstjórnina og skáru upp herör gegn haftabúskap fyrri ára. Í annan stað var efnahagsmálatilbúnaður harðra andstæðinga sjálfstæðismanna í Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi veikur. Framsóknarmenn höfðu í ljósi hagsmuna Sambandsins lítinn hug á hagkvæmum markaðsbúskap og börðust af hörku gegn flestum efnahagsumbótum viðreisnaráranna. Í Alþýðubandalaginu var ástandið litlu skárra: þar var nánast stöðutákn að hafa ekkert vit á efnahagsmálum. Í fyrsta skiptið, sem Alþýðubandalagið stýrði fjármálaráðuneytinu 1980-83, rauk verðbólgan upp í 83 prósent á ári. Sjálfstæðismenn gátu baðað sig í ljómanum, sem stafaði af getuleysi hinna á þessu sviði og sundurþykkju. Þetta er nú liðin tíð. Þegar Alþýðubandalagið stýrði fjármálaráðuneytinu öðru sinni 1988-91, var fjármálastjórnin í lagi, og þá komst aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu á dagskrá gegn ábyrgðarlausri og afhjúpandi andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Þá hafði ný kynslóð tekið við forustu Framsóknarflokksins og máð af honum megnustu andstöðuna við markaðsbúskap. Andstæðingarnir höfðu tekið framförum. Nýliðin tíðVandi Sjálfstæðisflokksins reyndist sá, að ný forustukynslóð flokksins, eftirstríðskynslóðin, bar ekki nógu glöggt skynbragð á efnahagsmál og brást þeim vonum, sem við hana voru bundnar. Nýja kynslóðin var eins og léleg eftirlíking hinnar eldri. Hún gapti upp í brezka íhaldsmenn og bandaríska repúblikana - Bush og kompaní! - og gleypti allt hrátt og varð um leið viðskila við systurflokkana á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu. Eftir samfellda ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins í sautján ár er verðbólgan enn hin mesta í allri Evrópu. Það mætti halda, að gömlu kommarnir séu komnir aftur í fjármálaráðuneytið. Það er ekki heil brú í skýringum sjálfstæðismanna í stjórnarráðinu og Seðlabankanum á þessum óförum: þeir kenna ýmist erlendum samsærismönnum um ástandið og heimta rannsókn eða skella skuldinni á tímabundið gengisfall án skilnings á því, að krónan var of hátt skráð fyrir, eða benda á erlendar verðhækkanir án sýnilegs skilnings á, að þá hefði verðbólgan í nálægum löndum aukizt jafnmikið og hér heima. Rétta skýringin er þó auðvitað hin sama og ævinlega: aðhalds- og ábyrgðarleysi í stjórn innlendra ríkisfjármála og peningamála. Ríkissjóður er nú ekki aflögufær nema hann taki erlent lán. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er brot af því, sem hann þyrfti að vera. Við þetta bætist annað, sem fengi fyrri foringja flokksins til að snúa sér við í gröfinni. Sjálfstæðisflokkurinn notaði fyrst aflakvótakerfið og síðan einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja til að mylja ásamt Framsóknarflokknum undir einkavini sína og vandamenn og lagði með því móti grunninn að þeirri hugsun, að stjórnmálastéttin geti með sjálftöku lyft kjörum sínum langt upp fyrir kjör venjulegs fólks. Þetta var hugsunin á bak við eftirlaunalögin illræmdu 2003 og einnig á bak við síaukna misskiptingu, sem ríkisstjórnin hefur þó ekki enn fengizt til að viðurkenna. Hvernig gat Sjálfstæðisflokkurinn sokkið svo djúpt? Mér verður hugsað til Suður-Ameríku, þar sem ófyrirleitnir, spilltir og illa innrættir lýðskrumarar þöndu efnahagslífið með erlendum lántökum til að kaupa sér fylgi, en það reyndist skammgóður vermir. Nú stendur Sjálfstæðisflokkurinn í sömu sporum, rúinn trúverðugleika og trausti. Flokksmenn mikluðust árum saman af góðri hagstjórn og börðu sér á brjóst án sýnilegs skilnings á því, að innlendar og erlendar skuldir fólksins og fyrirtækjanna í landinu ógna nú afkomu þeirra sem aldrei fyrr. Ballið er búið. Næsta skrefÓbreytt hagstjórnarfar felur í sér skylduaðild almennings að vogunarsjóði Sjálfstæðisflokksins. Frjálshugaðir menn í flokknum þurfa að leysa sig úr viðjum gömlu flokksklíkunnar og bjóðast á eigin forsendum til samstarfs við aðra innan þings og utan um að undirbúa án frekari tafar umsókn um aðild Íslands að ESB. Þannig liggur beinast við að reyna að endurvekja traust umheimsins á íslenzku efnahagslífi eftir það, sem á undan er gengið. Þegar samningur um aðild liggur fyrir, verður hann borinn undir atkvæði þjóðarinnar. Hún ein ræður.