Möguleg opnun Þorsteinn Pálsson skrifar 21. ágúst 2008 06:00 Framtíðarstefna í peningamálum er snúnasta viðfangsefni íslenskra stjórnmála. Valið stendur um íslenska krónu eða evru. Að því leyti er málið einfalt. En það er ekki allt. Um það er ágreiningur milli stjórnarflokkanna. Við hann bætast ólík viðhorf innan þeirra. Í Sjálfstæðisflokknum eru skiptar skoðanir um evruna. Þar á móti sýnist vera góð samstaða um þær efnahagslegu og fjármálalegu ráðstafanir sem óhjákvæmilegar eru svo að unnt sé að ná jafnvægi og skipta um mynt. Innan Samfylkingarinnar er hins vegar einhugur um evru en djúpstæður ágreiningur um mörg þau ráð sem nauðsynleg eru svo að því marki verði náð. Ekkert annað mögulegt ríkisstjórnarmynstur er líklegt til að greiða úr þessari flækju eins og sakir standa. Í Markaði Fréttablaðsins í gær lýsti forsætisráðherra því yfir að hann teldi rétt að stefna að því að Ísland uppfyllti Maastricht-skilyrði Evrópska myntbandalagsins um upptöku evru óháð aðild að sambandinu. Sú spurning vaknar hvort þessi yfirlýsing dragi úr ríkjandi óvissu með framtíðarstefnuna í peningamálum. Svarið er að hún gerir það ekki sjálfkrafa. Á hinn bóginn gæti hún opnað möguleika á að ná mönnum saman um að setja niður strik til að sigla eftir með nauðsynlegar skammtímaráðstafanir og ákveða tímaramma um þau efni sem ráða þarf til lengri tíma. Í því falli þyrftu allir sem hlut eiga að máli að sýna sveigjanleika. Enginn grundvallarágreiningur sýnist vera um ráðstafanir til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og greiða fyrir því að bankarnir geti veitt eðlilegu súrefni inn í atvinnulífið. Um leið þarf að eyða þeirri óvissu sem umhverfisráðherra hefur skapað um markvissa orkunýtingarstefnu. Loks þarf verulegt aðhald í ríkisfjármálum umfram það sem menn sáu fyrir við gerð stjórnarsáttmálans. Þetta eru verkefni næstu mánaða og missera. Framtíðarstefnan í peningamálum ræðst af þeim árangri sem menn ná á þessum tíma. Ef menn eru á einu máli um skammtímaaðgerðir sem miða að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin ætti að vera ásættanlegt að taka ákvörðun um framtíðina á þeim tímapunkti hvort sem menn vilja krónu eða evru. Tímapunkturinn gæti verið eftir tvö til þrjú ár. Umræðunni um evruna verður ekki ýtt út af borðinu með því að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum og uppfylla Maastricht-skilyrðin. Ástæðan er sú að ekki hefur verið sýnt fram á að unnt verði að viðhalda þeim stöðugleika með íslensku krónunni. Það er mergur málsins. Jónas Haralz og Einar Benediktsson bentu réttilega á fyrir skömmu að Seðlabankinn hefur ekki komið fram með gild rök fyrir því að krónan sé sterkari en evran til að verja varanlegan stöðugleika. Fersk ummæli Erlendar Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs, og Jóns Steinssonar hagfræðings um kosti evrunnar umfram krónunnar til að viðhalda stöðugleika þyngja umræðuna enn frekar. Hugsanleg innganga í Evrópusambandið byggist bæði á pólitísku áliti á stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu og köldu hagsmunamati. Breið samstaða um slíka ákvörðun er nauðsynleg. Framhjá því verður ekki horft að nokkurn tíma þarf til að ná slíkri samstöðu og sýna að nægjanleg eindrægni sé um þau skammtímaráð sem eru grundvöllur stærri ákvarðana. Það þarf lagni til að greiða úr flókinni stöðu. Á því eru möguleikar. Eðlilegt er að líta á yfirlýsingu forsætisráðherra sem mikilvægt framlag í þá veru. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Framtíðarstefna í peningamálum er snúnasta viðfangsefni íslenskra stjórnmála. Valið stendur um íslenska krónu eða evru. Að því leyti er málið einfalt. En það er ekki allt. Um það er ágreiningur milli stjórnarflokkanna. Við hann bætast ólík viðhorf innan þeirra. Í Sjálfstæðisflokknum eru skiptar skoðanir um evruna. Þar á móti sýnist vera góð samstaða um þær efnahagslegu og fjármálalegu ráðstafanir sem óhjákvæmilegar eru svo að unnt sé að ná jafnvægi og skipta um mynt. Innan Samfylkingarinnar er hins vegar einhugur um evru en djúpstæður ágreiningur um mörg þau ráð sem nauðsynleg eru svo að því marki verði náð. Ekkert annað mögulegt ríkisstjórnarmynstur er líklegt til að greiða úr þessari flækju eins og sakir standa. Í Markaði Fréttablaðsins í gær lýsti forsætisráðherra því yfir að hann teldi rétt að stefna að því að Ísland uppfyllti Maastricht-skilyrði Evrópska myntbandalagsins um upptöku evru óháð aðild að sambandinu. Sú spurning vaknar hvort þessi yfirlýsing dragi úr ríkjandi óvissu með framtíðarstefnuna í peningamálum. Svarið er að hún gerir það ekki sjálfkrafa. Á hinn bóginn gæti hún opnað möguleika á að ná mönnum saman um að setja niður strik til að sigla eftir með nauðsynlegar skammtímaráðstafanir og ákveða tímaramma um þau efni sem ráða þarf til lengri tíma. Í því falli þyrftu allir sem hlut eiga að máli að sýna sveigjanleika. Enginn grundvallarágreiningur sýnist vera um ráðstafanir til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og greiða fyrir því að bankarnir geti veitt eðlilegu súrefni inn í atvinnulífið. Um leið þarf að eyða þeirri óvissu sem umhverfisráðherra hefur skapað um markvissa orkunýtingarstefnu. Loks þarf verulegt aðhald í ríkisfjármálum umfram það sem menn sáu fyrir við gerð stjórnarsáttmálans. Þetta eru verkefni næstu mánaða og missera. Framtíðarstefnan í peningamálum ræðst af þeim árangri sem menn ná á þessum tíma. Ef menn eru á einu máli um skammtímaaðgerðir sem miða að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin ætti að vera ásættanlegt að taka ákvörðun um framtíðina á þeim tímapunkti hvort sem menn vilja krónu eða evru. Tímapunkturinn gæti verið eftir tvö til þrjú ár. Umræðunni um evruna verður ekki ýtt út af borðinu með því að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum og uppfylla Maastricht-skilyrðin. Ástæðan er sú að ekki hefur verið sýnt fram á að unnt verði að viðhalda þeim stöðugleika með íslensku krónunni. Það er mergur málsins. Jónas Haralz og Einar Benediktsson bentu réttilega á fyrir skömmu að Seðlabankinn hefur ekki komið fram með gild rök fyrir því að krónan sé sterkari en evran til að verja varanlegan stöðugleika. Fersk ummæli Erlendar Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs, og Jóns Steinssonar hagfræðings um kosti evrunnar umfram krónunnar til að viðhalda stöðugleika þyngja umræðuna enn frekar. Hugsanleg innganga í Evrópusambandið byggist bæði á pólitísku áliti á stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu og köldu hagsmunamati. Breið samstaða um slíka ákvörðun er nauðsynleg. Framhjá því verður ekki horft að nokkurn tíma þarf til að ná slíkri samstöðu og sýna að nægjanleg eindrægni sé um þau skammtímaráð sem eru grundvöllur stærri ákvarðana. Það þarf lagni til að greiða úr flókinni stöðu. Á því eru möguleikar. Eðlilegt er að líta á yfirlýsingu forsætisráðherra sem mikilvægt framlag í þá veru.