Norski dómarinn Tom Henning Øvrebø er ekki vinsælasti maðurinn í Lundúnum í dag. Eftir leik Chelsea og Barcelona í gær þurfti hann að skipta um hótel og lögreglan þurfti að fylgja honum úr landi í morgun.
Óttast var að stuðningsmenn Chelsea myndu taka málin í sínar hendur eftir leikinn í gær. Barcelona tryggði sér þá sæti í úrlsitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa tryggt sér 1-1 jafntefli gegn Chelsea í uppbótartíma.
Leikmenn Chelsea voru bálreiðir út í Øvrebø. Þeir vildu fá minnst fjórar vítaspyrnur í leiknum. Didier Drogba og Michael Ballack gengu hvað lengst í mótmælum sínum
Lögreglan í Osló hefur einnig verið að fylgjast náið með hótunum sem hafa verið gerðar í garð Øvrebø á internetinu. Meðal þeirra eru líflátshótanir.
„Við höfum verið að fylgjast grannt með því sem hefur verið skrifað á internetinu. Allt sem hægt er að túlka sem ógnun við hans öryggi verður tekið mjög alvarlega."