Handbolti

Haukar lögðu Fram í Safamýri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Viggó Sigurðsson stýrir Fram gegn sínu gamla félagi í kvöld.
Viggó Sigurðsson stýrir Fram gegn sínu gamla félagi í kvöld. Mynd/Anton

Topplið Hauka vann góðan sigur á Fram, 22-27, í hörkuleik í Safamýrinni í kvöld. Haukarnir efstir sem fyrr í deildinni en Fram verður í miklum slag um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Vísir var með beina textalýsingu frá leiknum. Hana má sjá hér að neðan.

Leik lokið: Haukar sigra þennan slagsmálaleik sannfærandi.

56. mín: Haukar kláruðu þennan leik í 17-18. Skoruðu 6 mörk í röð og tryggðu sér stigin tvö. Staðan 18-24.

53. mín: Sigurbergur að detta í gírinn á lokakaflanum eftir mörg misheppnuð skot. Haukar með ágætt tak á þessum leik, 17-22.

50. mín: Birkir varði nokkra bolta og Haukar komust í 15-18. Þá komu Framarar aftur til baka og minnkuðu muninn í 17-18. Nú er staðan 17-19. Þetta er rosalegur leikur.

45. mín: Magnús Erlendsson ver eins og berserkur og hjálpar Fram að komast aftur inn í leikinn. Staðan 15-16 fyrir Hauka.

40. mín: Haukar að ná smá tökum á þessum leik sem hefur verið æsispennandi. Sóknarleikur Fram að klikka. 13-16 fyrir Hauka.

35. mín: Rúnar og Sigurbergur reyna að skjóta sig í gang með misjöfnum árangri en skotnýting ungu stjarnanna er skelfileg í þessum leik. 11-13 fyrir Hauka.

30. mín: Framarar rúlluðu út aukastúku í leikhléi við varamannabekk Hauka, að því er virtist að óþörfu enda pláss hinum megin í húsinu. Kjartan Steinbach eftirlitsdómari var einhverra hluta vegna á móti því og lét Framara ganga frá stúkunni á nýjan leik eftir að áhorfendur voru sestir í stúkuna. Sérstök uppákoma.

Hálfleikur: 10-11 fyrir Hauka. Átakamiklum fyrri hálfleik lokið. Heitt í mönnum og fast tekist á. Ætti að verða æsilegur síðari hálfleikur. Rúnar Kárason hefur skorað mest Framara eða 3 mörk, þar af 2 úr vítum. Magnús Erlendsson verið þeirra bestur og séð til þess að munurinn er aðeins eitt mark með því að verja 12 skot í hálfleiknum. Sigurbergur Sveinsson hefur skorað mest Hauka eða 5 mörk, þar af 4 úr vítum. Birkir Ívar Guðmundsson hefur varið 8 skot í Haukamarkinu.

27. mín: 9-10 fyrir Hauka. Arnar Pétursson að taka á Rúnari Kárasyni en Arnar varð brjálaður er Rúnar sló til Gunnars áðan. Arnar reynir að æsa Rúnar upp.

24. mín: Framarar aðeins að koma til baka og Haukar taka leikhlé. Staðan 8-9 fyrir Hauka.

20. mín: Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, kominn með gult spjald og er enn æstur. Hann virkar taugatrekktur en Viggó Sigurðsson er með rólegra móti á hinum bekknum. Það kraumar undir og ekki hjálpar til að dómarar eru frekar mistækir. Staðan 6-8 fyrir Hauka.

15. mín: Allt að sjóða upp úr. Rúnar Kárason virtist slá framan í Gunnar Berg Viktorsson sem var við eigin bekk. Haukarnir brjálaðir og Rúnar líka sem vildi fá fríkast skömmu áður. Hann virtist sleppa vel með skrekkinn þarna.

10. mín: Enn mikil átök og sterkar varnir hjá báðum liðum. 3-4 fyrir Hauka.

5. mín: Fast tekist á fyrstu mínúturnar og ljóst að ekkert verður gefið eftir. Ekkert sérstaklega margir áhorfendur en hafa hátt með stórum trommum. Staðan 2-1 fyrir Fram.




































Fleiri fréttir

Sjá meira


×