Rosenborg vann í dag 4-0 sigur á Bodö/Glimt í norsku úrvalsdeildinni og er því enn taplaust á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot á næsta lið.
Rosenborg er með 26 stig eftir tólf leiki en Molde er í öðru sæti með 21 stig. Sjö leikir fóru fram í deildinni í dag.
Molde vann í dag 2-1 sigur á Odd Grenland en Árni Gautur Arason stóð í marki síðarnefnda liðsins allan leikinn.
Indriði Sigurðsson og Theodór Elmar Bjarnason fengu báðir að líta gula spjaldið er lið þeirra, Lyn, gerði 1-1 jafntefli við Lilleström á heimavelli. Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í leikmannahópi Lilleström.
Álasund vann Sandefjord, 2-1, á útivelli. Kjartan Henry Finnbogason var ekki í leikmannahópi Sandefjord.
Stabæk vann 2-0 sigur á Tromsö á sínum heimavelli. Pálmi Rafn Pálmason lék allan leikinn í liði Stabæk.
Þá lék Garðar Jóhannsson allan leikinn í liði Fredrikstad sem vann 1-0 sigur á Start.
Odd Grenland er í fimmta sæti deildarinnar með átján stig, rétt eins og Brann sem er í sjöunda sæti. Stabæk og Fredrikstad eru bæði með fjórtán stig í níunda og tíunda sæti. Lilleström er svo í fjórtánda sæti með ellefu stig og Lyn í því fimmtánda og næstneðsta með tíu stig.