Veigar Páll Gunnarsson var sagður í norskum fjölmiðlum í gærkvöldi aftur á leið til norska úrvalsdeildarfélagsins Stabæk þar sem hann lék í fimm ár.
Veigar Páll var seldur frá Stabæk til Nancy í frönsku úrvalsdeildinni en þar hefur hann afskaplega lítið fengið að spila.
Hann hefur ekkert komið við sögu á leiktíðinni og hefur ekki verið í leikmannahópnum síðan um miðjan ágúst.
Hann fékk einn leik í byrjunarliði Nancy í fyrra og kom fjórum sinnum inn á sem varamaður.
Jim Solbakken, umboðsmaður Veigars Páls, sagði að verið væri að vinna að því að finna lausn en Veigar Páll hefur áður sagt að hann væri til í að skoða það að fara aftur til Noregs.
Tom Schelvan, framkvæmdarstjóri Stabæk, segir þó enga peninga til í leikmannakaup og er því verið að skoða þann möguleika að fá Veigar Pál frítt frá Nancy.