Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Barcelona og lék fyrri hálfleikinn í 1-1 jafntefli Barcelona á móti Tottenham á Wembley-æfingamótinu í kvöld.
Bojan Krkic kom Barcelona í 1-0 á 32. mínútu leiksins en varamaðurinn Jake Livermore jafnaði metin sjö mínútum fyrir leikslok. Livermore lék undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar hjá Crewe á síðasta tímabili.
Það vantaði flestar skærustu stjörnurnar í lið Barcelona sem var að stórum hluta til skipað ungum leikmönnum úr varaliði félagsins. Eiður Smári stóð sig ágætlega þær 45 mínútur sem hann spilaði á miðju Barcelona.