Viðskipti erlent

Danskt tískuhús leitar að nýjum eigenda í stað Straums

Danska tískuhúsið Day Birger Mikkelsen leitar nú að nýjum eigenda að helmingi hlutafjár en sá hlutur er í eigu Straums.

Í umfjöllun um málið á business.dk kemur fram að stofnandi Day Birger, Keld Mikkelsen, hafi orðið fyrir vonbrigðum með fall Straums og að hann voni að annarr erlendur fjárfestir muni hlaupa í skarðið.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að fá inn erlent eignarhald og reynslu þar sem við ætlum að hasla okkur völl á erlendum vettvangi," segir Mikkelsen. „Því tel ég að aðkoma erlendra fjárfesta að fyrirtækinu sé góð hugmynd."

Baugur keypti sig inn í Day Birger árið 2006 og voru væntingarnar miklar með aðkomu Baugs. Ætlunin var að byggja tískuhúsið upp hratt á alþjóðavettvangi og hugmyndir voru uppi um að auka veltun upp í milljarð danskra kr. á fjórum árum. Opnaðar voru 12 nýjar verslanir í Bretlandi.

Þetta hefur ekki gengið upp og enn er velta tískuhússins talin í milljónum dkr. Eftir að Baugur komst í þrot tók Straumur við eignarhlutnum í Day Birger.

Mikkelsen segir að ef ekki takist að fá annan erlendan fjárfestir að tískuhúsi sínu muni hann sjálfur kaupa hlut Straums.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×