Viðskipti erlent

Leita leiða til að hækka olíuverð

Samtök olíuríkja koma saman til fundar nú um helgina til þess að leita leiða til að minnka olíubirgðir og hækka þannig verðið á heimsmarkaði. Mikil andstaða er við það hjá neysluríkjunum.

Gríðarlegar sveiflur hafa orðið á olíumörkuðum undanfarin misseri. Í júlí á síðasta ári fór olíufatið upp í 147 dollara og einn helsti gúrú olíuverðlagsmála spáði því að það færi upp í 200 dollara.

Svo kom kreppan og í desember var fatið komið niður í rétt rúma 32 dollara. Í dag er það um 46 dollarar.

Samtök olíuframleiðsluríkja OPEC segja að það verð sé óviðunandi þar sem það standi ekki undir framleiðslunni.

Ekki er þó útlit fyrir miklar hækkanir á næstunni þar sem eftirspurn fer enn minnkandi og birgðirnar halda áfram að aukast.

Á fundi sínum í Vínarborg um helgina ætla OPEC ríkin að leita leiða til þess að minnka birgðirnar sem gerist varla öðruvísi en þau dragi enn úr framleiðslu sinni.

Það er þó þrautin þyngri því sum OPEC ríkjanna hafa litlar sem engar aðrar tekjur og neyðast því til að selja á undirverði til þess að fá þó einhverja peninga í kassann.

OPEC ríkin segja að algert lágmarksverð á olíu sé sjötíu dollarar fyrir fatið og vilja koma verðinu upp í það.

Neysluríkin mótmæla og segja að lágt olíuverð jafngildi björgunarpakka eins og þeim sem ríkisstjórnir hafa sett saman fyrir lönd sín.

OPEC ríkjunum þykir hinsvegar ekki réttlátt að þau eigi að hafa allan heiminn á herðum sér.


Tengdar fréttir

Íranir vilja minni olíu

Olíumálaráðherra Írans lagði til á fundi OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, að olíuríkin dragi enn frekar úr framleiðslu sinni. ,,Það er alltof mikil olía á markaðnum," sagði Gholam Hossein Nozari, olíumálaráðherra Írans, við blaðmenn í Vín í Austurríki þar sem fundurinn fer fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×