Handbolti

Ótrúlegir Frakkar eru heimsmeistarar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claude Onesta og lærisveinar hans fagna sigrinum í dag.
Claude Onesta og lærisveinar hans fagna sigrinum í dag. Nordic Photos / AFP

Frakkar unnu sigur á heimamönnum Króata í úrslitum heimsmeistaramótsins í handbolta í dag, 24-19, með góðum endaspretti eftir jafnan leik.

Þó svo að Króatar hafi verið afar vel studdir af áhorfendum á heimavelli í Zagreb gerðist það sem flesta grunaði - að Frakkar voru bara of sterkir.

Frakkar skoruðu fimm af síðustu sex mörkum leiksins og unnu fimm marka sigur, 24-19. Króatar höfðu þó forystuna í hálfleik, 12-11.

Leikurinn var í járnum í 50 mínútur. Þegar tíu mínútur voru eftir komust Frakkar í 19-18 og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Vörnin skellti í lás og Thierry Omeyer fylgdi með góðri markvörslu í kjölfarið. Heimamenn áttu hreinlega ekkert svar.

Luc Abalo kom Frökkum í þriggja marka forystu, 22-19, þegar þrjár mínútur voru eftir og fyrirliðinn Jerome Fernandez tryggði sigurinn þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. Þá kom hann sínum mönnum í 23-19.

Frakkar voru einfaldlega í sérklassa í þessu móti. Þeir fóru í gegnum fyrstu sjö leiki mótsins án þess að svitna og gátu svo leyft sér að tapa fyrir Króötum í lokaleik milliriðlakeppninnar. Frakkar unnu svo öruggan sigur á Evrópumeisturum Dana í undanúrslitum og fengu ekki almennilega mótspyrnu fyrr en í dag.

Króatar fóru eins langt á heimavelli og hægt var en urðu að lokum að játa sig sigraða fyrir betra liðinu.

Frakkar er nú ríkjandi heims- og Ólympíumeistarar og geta bætt Evrópumeistaratitlinum í safnið en keppnin fer fram í Austurríki á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×