Viðskipti erlent

Tölvupóstur um íslenskan banka kostaði Kent 500 milljónir

Óopnaður tölvupóstur til sveitarstjórnarinnar í Kent í Bretlandi um slæma stöðu Heritable, dótturbanka Landsbankans, kostaði sveitarstjórnina 3 milljónir punda eða um 500 milljónir kr.

Fjallað er um málið á vefsíðu sveitarstjórnarinnar en þar kemur fram að fulltrúi hennar setti fyrrgreinda upphæð inn á reikning Kent hjá Heritable örfáum dögum áður en bankinn komst í þrot.

Fjármálaráðgjafa Kent var sendur tölvupóstur um að staða Heritable væri þannig að ekki væri verjandi að halda áfram viðskiptum við bankann. Pósturinn var hinsvegar ekki opnaður í tæka tíð þar sem ráðgjafinn var í sumarfríi þegar pósturinn barst.

Nick Chard fjármálastjóri Kent hefur viðkennt að sveitarstjórnin hafi gert mistök með því að sjá ekki um að staða ráðgjafans væri mönnuð meðan hann var í fríi.

Eftir endurskoðun á starfsferlum innan sveitarstjórnarinnar árið 2006 var sett inn ákvæði í reglugerðir Kent um að færsla á upphæð af þessari stærðargráðu þyrfti að vera samþykkt af tveimur háttsettum embættismönnum stjórnarinnar. Þetta brást einnig hvað framangreinda færslu varðar.

Fulltrúinn sem setti 500 milljónirnar inn á reikning Heritable bankans hefur verið áminntur fyrir athæfið.

Samtals átti Kent 50 milljónir punda, eða um 84 milljarða kr. inni á reikningum hjá Heritable, Landsbankanum og Glitni þegar íslenska bankakerfið hrundi. Sveitarstjórnin telur töluverðar líkur á að sú upphæð fáist að mestu endurgreidd þar sem krafa þeirra hefur verið flokkuð sem forgangskrafa í þrotabú fyrrgreindra banka.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×