Enski boltinn

Ferguson: Aldrei heyrt jafn mikinn hávaða á leik

Ómar Þorgeirsson skrifar
Paul Scholes fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Paul Scholes fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Nordic photos/AFP

Englandsmeistarar Manchester United hófu leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld með góðum 0-1 útisigri gegn Besiktas í Tyrklandi en Paul Scholes skoraði sigurmarkið þegar um stundarfjórðungur lifði leiks.

Knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson hjá United kvaðst aldrei hafa upplifað aðra eins stemningu en var þó ekki ánægður með allt sem stuðningsmenn tyrknesku meistaranna tóku upp á utan vallar á meðan á leik liðanna stóð.

„Stuðningsmenn Besiktas kölluðu fram mesta hávaða sem ég hef nokkurn tímann heyrt og þeir hættu ekki að öskra allan leikinn. Þetta var ótrúlegt.

Það voru hins vegar atriði sem við vorum ekki ánægðir með því það var einhver óprúttinn aðili sem beindi leysigeisla að leikmönnum United og þá sérstaklega Jonny Evans en við létum öryggisverði vita og þeir kipptu þessu í liðinn og gómuðu sökudólginn," sagði Ferguson og hrósaði markaskoraranum Scholes sérstaklega í leikslok.

„Scholes gerði það sem hann gerir best. Þetta var alveg dæmigert mark fyrir hann," sagði Ferguson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×