Bifvélavirkinn Einar Már Jónsson skrifar 7. september 2009 06:00 Þegar þess var minnst með pompi og prakt í júní síðastliðnum að sextíu og fimm ár voru liðin síðan innrásin var gerð í Normandí vakti það athygli að Sarkozy Frakklandsforseti skyldi einungis bjóða Obama, forseta Bandaríkjanna, til hátíðahaldanna en láta alveg undir höfuð leggjast að bjóða Elísabetu Englandsdrottningu. Um það varð þó ekki deilt að Englendingar áttu mjög stóran þátt í innrásinni ásamt Bandaríkjamönnum, bæði í undirbúningi hennar, sem fór fram að verulegu leyti í Englandi, í landgöngunni sjálfri og sókninni inn í meginland Evrópu. Breskir fjölmiðlar tóku þetta því óstinnt upp, og sagt var að drottningu sjálfri hefði mislíkað. Svo vill nefnilega til að hún er eini þjóðhöfðinginn í víðri veröld sem tók þátt í heimsstyrjöldinni, hún var kvödd til þjónustu í her hans hátignar föður síns, kornung að aldri, þjálfuð sem bifvélavirki og síðan keyrði hún herbíla íklædd úniformi. Er að þessu vikið í þeirri ágætu kvikmynd „Drottningin" sem margir hafa séð. Auk þess kynntist hún persónulega ýmsum helstu forsprökkum styrjaldaráranna, Churchill, Eisenhower, de Gaulle og öðrum, en það er meira en hægt er að segja um þá sveinstaula sem nú fara með völd á heimskringlunni. Hún stendur því uppi sem vitni um þessa fjarlægu tíma. En hafi breskir fjölmiðlamenn reiðst fyrir hönd drottningar, keyrði þó fyrst um þverbak þegar þeir fóru að velta fyrir sér ástæðunni fyrir því að Sarkozy skyldi hafa orðið svo illa fótaskortur á prótókollinum. Því var nefnilega haldið fram, og alls staðar haft fyrir satt bæði í Frakklandi sem annars staðar, að hann hefði boðið Obama og honum einum til þess að þeir gætu komið fram í sameiningu sem æðstu valdhafar heims, Obama og Sarkozy, Sarkozy og Obama, Sarkobama, risinn tvíhöfða, sem bæri á herðum sér vandamál veraldar. Þetta ætlaði Sarkozy að kunngera öllum lýð með þeim opinberu ljósmyndum sem teknar yrðu við hátíðahöldin, og sjónvarpssendingunum; þar vildi hann vera viss um að tróna einn ásamt Bandaríkjaforseta og alls ekki eiga á hættu að einhver bifvélavirki færi að troða sér við hliðina á þeim. En þetta mæltist alls staðar svo illa fyrir, ekki síst í Washington, að Sarkozy varð í ofboði að bjóða Karli Filippussyni á hátíðina til að breiða yfir axarskaftið, og mætti hann þar sem fulltrúi Bretaveldis. Var nú Sarkozy sáttur að kalla við ætt Auðunar skökuls. En Frakklandsforseti var samt ekki búinn að bíta úr nálinni með þetta; Obama hugsaði sitt, enda orðinn ýmsu vanur úr þessari átt. Upphafið var með þeim hætti að í nóvember 2008 efndi Sarkozy til „ráðstefnu" í Washington um kreppuna sem var að hefjast - það var þá sem frönsk blöð kölluðu hann „herra Alheim" - og setti allt á endann til að fá tekna af sér mynd við hliðina á hinum nýkjörna forseta, sem hélt sér til hlés og tók ekki á móti neinum. Hann pantaði þotu úr bandaríska flughernum til að geta brugðið sér fyrirvaralaust til Chicago þar sem Obama bjó, og fól franska utanríkisráðherranum að útvega sér ádíens hvað sem það kostaði. En Obama skellti skollaeyrum við þessu öllu, og eftir viku skilaði Sarkozy flugvélinni og snautaði aftur til Parísar. Um leið og Obama tók við völdum lét Sarkozy öllum illum látum til að fá að koma til fundar við forsetann í Hvíta húsinu fyrstur erlendra þjóðhöfðingja, og þegar það gekk ekki, að verða þá annar og svo þriðji. En það kom fyrir ekki, Obama talaði við kóng og prest, tvisvar við Angelu Merkel og tvisvar við Gordon Brown, áður en röðin kæmi að Nikulási. Við þetta fór smám saman að síga í Sarkozy, og einu sinni þegar hann sat í Elysée-höll í vinahópi lét hann þau orð falla um Bandaríkjaforseta, að hann væri „slappur, reynslulaus, hefði vonda ráðgjafa og vissi ekkert um breytingar á loftslagi jarðar". Þessi orð spurðust þegar og varð mikill hvellur; í bandaríska sendiráðinu hlógu menn kuldalega. Obama lét ekkert í ljós en á fundi nokkru síðar dró hann franskan ráðherra afsíðis og sagði: „Róaðu Nikulás. Ég skal læra mínar lexíur og vinna mína heimavinnu refjalaust. Eftir tvo mánuði verð ég orðinn alveg fullfær í loftslagsbreytingunum." Ráðherrann setti upp pókerfés og lést ekki skilja háðið. Nú mun ekki vera neinn ágreiningur milli Frakka og Bandaríkjamanna, það er einungis Nikulás sem hefur tekist að fara svona í taugarnar á Obama. En ekki er laust við að franskir fréttaskýrendur hafi af þessu áhyggjur: ef eitthvað gerðist þannig að forsetarnir þyrftu að vinna saman… Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Varist eftirlíkingar Franklín Ernir Kristjánsson Skoðun Íslenskan okkar allra Bryndís Haraldsdóttir Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Feður eiga undir högg að sækja í forsjármálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun
Þegar þess var minnst með pompi og prakt í júní síðastliðnum að sextíu og fimm ár voru liðin síðan innrásin var gerð í Normandí vakti það athygli að Sarkozy Frakklandsforseti skyldi einungis bjóða Obama, forseta Bandaríkjanna, til hátíðahaldanna en láta alveg undir höfuð leggjast að bjóða Elísabetu Englandsdrottningu. Um það varð þó ekki deilt að Englendingar áttu mjög stóran þátt í innrásinni ásamt Bandaríkjamönnum, bæði í undirbúningi hennar, sem fór fram að verulegu leyti í Englandi, í landgöngunni sjálfri og sókninni inn í meginland Evrópu. Breskir fjölmiðlar tóku þetta því óstinnt upp, og sagt var að drottningu sjálfri hefði mislíkað. Svo vill nefnilega til að hún er eini þjóðhöfðinginn í víðri veröld sem tók þátt í heimsstyrjöldinni, hún var kvödd til þjónustu í her hans hátignar föður síns, kornung að aldri, þjálfuð sem bifvélavirki og síðan keyrði hún herbíla íklædd úniformi. Er að þessu vikið í þeirri ágætu kvikmynd „Drottningin" sem margir hafa séð. Auk þess kynntist hún persónulega ýmsum helstu forsprökkum styrjaldaráranna, Churchill, Eisenhower, de Gaulle og öðrum, en það er meira en hægt er að segja um þá sveinstaula sem nú fara með völd á heimskringlunni. Hún stendur því uppi sem vitni um þessa fjarlægu tíma. En hafi breskir fjölmiðlamenn reiðst fyrir hönd drottningar, keyrði þó fyrst um þverbak þegar þeir fóru að velta fyrir sér ástæðunni fyrir því að Sarkozy skyldi hafa orðið svo illa fótaskortur á prótókollinum. Því var nefnilega haldið fram, og alls staðar haft fyrir satt bæði í Frakklandi sem annars staðar, að hann hefði boðið Obama og honum einum til þess að þeir gætu komið fram í sameiningu sem æðstu valdhafar heims, Obama og Sarkozy, Sarkozy og Obama, Sarkobama, risinn tvíhöfða, sem bæri á herðum sér vandamál veraldar. Þetta ætlaði Sarkozy að kunngera öllum lýð með þeim opinberu ljósmyndum sem teknar yrðu við hátíðahöldin, og sjónvarpssendingunum; þar vildi hann vera viss um að tróna einn ásamt Bandaríkjaforseta og alls ekki eiga á hættu að einhver bifvélavirki færi að troða sér við hliðina á þeim. En þetta mæltist alls staðar svo illa fyrir, ekki síst í Washington, að Sarkozy varð í ofboði að bjóða Karli Filippussyni á hátíðina til að breiða yfir axarskaftið, og mætti hann þar sem fulltrúi Bretaveldis. Var nú Sarkozy sáttur að kalla við ætt Auðunar skökuls. En Frakklandsforseti var samt ekki búinn að bíta úr nálinni með þetta; Obama hugsaði sitt, enda orðinn ýmsu vanur úr þessari átt. Upphafið var með þeim hætti að í nóvember 2008 efndi Sarkozy til „ráðstefnu" í Washington um kreppuna sem var að hefjast - það var þá sem frönsk blöð kölluðu hann „herra Alheim" - og setti allt á endann til að fá tekna af sér mynd við hliðina á hinum nýkjörna forseta, sem hélt sér til hlés og tók ekki á móti neinum. Hann pantaði þotu úr bandaríska flughernum til að geta brugðið sér fyrirvaralaust til Chicago þar sem Obama bjó, og fól franska utanríkisráðherranum að útvega sér ádíens hvað sem það kostaði. En Obama skellti skollaeyrum við þessu öllu, og eftir viku skilaði Sarkozy flugvélinni og snautaði aftur til Parísar. Um leið og Obama tók við völdum lét Sarkozy öllum illum látum til að fá að koma til fundar við forsetann í Hvíta húsinu fyrstur erlendra þjóðhöfðingja, og þegar það gekk ekki, að verða þá annar og svo þriðji. En það kom fyrir ekki, Obama talaði við kóng og prest, tvisvar við Angelu Merkel og tvisvar við Gordon Brown, áður en röðin kæmi að Nikulási. Við þetta fór smám saman að síga í Sarkozy, og einu sinni þegar hann sat í Elysée-höll í vinahópi lét hann þau orð falla um Bandaríkjaforseta, að hann væri „slappur, reynslulaus, hefði vonda ráðgjafa og vissi ekkert um breytingar á loftslagi jarðar". Þessi orð spurðust þegar og varð mikill hvellur; í bandaríska sendiráðinu hlógu menn kuldalega. Obama lét ekkert í ljós en á fundi nokkru síðar dró hann franskan ráðherra afsíðis og sagði: „Róaðu Nikulás. Ég skal læra mínar lexíur og vinna mína heimavinnu refjalaust. Eftir tvo mánuði verð ég orðinn alveg fullfær í loftslagsbreytingunum." Ráðherrann setti upp pókerfés og lést ekki skilja háðið. Nú mun ekki vera neinn ágreiningur milli Frakka og Bandaríkjamanna, það er einungis Nikulás sem hefur tekist að fara svona í taugarnar á Obama. En ekki er laust við að franskir fréttaskýrendur hafi af þessu áhyggjur: ef eitthvað gerðist þannig að forsetarnir þyrftu að vinna saman…