Viðskipti erlent

Cherie Blair ráðin til að lögsækja RBS og sir Fred Goodwin

Cherie Blair, fyrrum forsætisráðherrafrú Bretlands, hefur verið ráðin til að stjórn lögsókn gegn Royal Bank of Scotland (RBS) og sir Fred „The Shred" Goodwin fyrrum forstjóra bankans.

Það voru eftirlaunasjóðir sveitarstjórna North Yorkshire og Merseyside sem fengu Cherie til liðs við sig en lögsóknin byggir á því að sir Fred hafi blekkt sjóðina til þess að halda að RBS stæði á traustum fótum þegar bankinn í raun riðaði til falls vegna skuldsetningar og ótraustra útlána.

Cherie, sem í vinnu sinni ber eftirnafnið Booth og titilinn QC, segir að hún hafi tekið að sér málið vegna þess gífurlega taps sem sveitarstjórnir og aðrar stofnanir í Bretlandi hafa orðið fyrir sem stórir fjárfestar í RBS.

Málið verður sótt í Bandaríkjunum þar sem um hóplögsókn er að ræða. Mun auðveldara er að hefja slíka lögsókn vestan hafs en í Bretlandi. Og þar sem töluvert stór hluti starfsemi RBS var í Bandaríkjunum er ekkert því til fyrirstöðu að frú Booth QC reki málið fyrir dómstóli í New York þar sem málið hefur þegar verið þingfest.

Að sögn blaðsins The Times er reiknað með að fleiri en fyrrgreindir sjóðir muni gerast aðilar að lögsókninni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×