„Ég held að þetta hafi verið mjög skemmtilegur leikur á að horfa. Það var gríðarleg barátta," sagði Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður Hauka, eftir sigurinn dramatíska á PLER frá Ungverjalandi í kvöld.
Sigurinn fleytir Hafnarfjarðarliðinu í næstu umferð EHF-keppninnar. „Þetta var mjög sterkur andstæðingur sem spilar mjög skynsamlega. Mér fannst við líka spila vel í dag," sagði Birkir.
Liðin gerðu jafntefli í fyrri leiknum á laugardag en Birkir var sammála blaðamanni að spilamennska Haukaliðsins hafi verið mun betri í þessum síðari leik. „Menn voru tilbúnir að deyja fyrir félagið og málstaðinn og það skóp þennan sigur fyrst og fremst. Vonandi fáum við Lemgo, Flensburg, GOG eða eitthvað annað stórlið í næstu umferð. Ævintýrið heldur áfram."