Sú eina Einar Már Jónsson skrifar 18. febrúar 2009 06:00 Á Íslandi hafa menn oft spurt mig hvernig franskir fjölmiðlar fjalli um ástandið á skerinu, um bankahrunið, kreppuna og allt það sem siglt hefur í kjölfar hennar, og hvernig þeim liggi yfirleitt orð til Mörlandans; eru þessar spurningar jafnan bornar fram með miklum áhyggjutón og titringi í röddinni. En ég get ekki annað en komið þessum mönnum á óvart með því að segja þeim að um mál Íslendinga á síðustu tímum hafi fjölmiðlar í Frakklandi, að ég held allir sem einn, fjallað af mikilli samúð og skilningi, og jafnan verið harla velviljaðir í garð landans. Sú mynd sem þar er dregin upp af Íslendingum er stundum svo jákvæð og hugljúf að manni finnst að það hálfa væri nóg. Um leið og bankarnir hrundu og stjórnvöld tóku yfir var rækilega skýrt frá þeim tíðindum í Frakklandi, en eins og ástandið var þá í fjármálum heimsins kom þetta engum á óvart, það virtist nokkuð eðlilegt. Hins vegar var eins og fjölmiðlarnir leiddu alveg hjá sér að fjalla um brambolt Breta, ásakanir þeirra á hendur Íslendingum og harkalegar aðgerðir þeirra, a.m.k. heyrði ég ekkert um það og ég varð jafnframt var við að þótt mjög margir vissu um kreppuna á Íslandi og spyrðu mig um hana með áhyggjusvip virtist engum vera kunnugt um þátt Englendinga í málinu. Eftir þetta birtust langar greinar um Ísland í frönskum blöðum, þar var sagt frá aðdraganda hrunsins og stöðunni eftir það; bellibrögð „útrásarvíkinganna" svokölluðu voru tíunduð og lýst reiði almennings í þeirra garð, en Íslendingar sem slíkir voru hins vegar firrtir allri ábyrgð á gerðum þeirra. Frönsku fjölmiðlarnir höfðu fréttamenn á staðnum, aðrir voru einnig sendir á vettvang, þeir lýstu andrúmsloftinu í Reykjavík og höfðu viðtöl við menn af ýmsu tagi, m.a. leigubílstjóra sem harmaði að Íslendingar skyldu ekki eiga fallöxi eins og Frakkar, oft hefði verið þörf en nú væri nauðsyn. En franski fréttamaðurinn var hræddur um að fallöxin kynni nú að vera ryðguð af alllöngu notkunarleysi, því væru ýmis tormerki á menningarsamstarfi á því sviði. Sem dæmi um þessi skrif má kannske nefna grein sem birtist í „Le Figaro" rétt eftir valdatöku nýju stjórnarinnar og teygði sig yfir alla baksíðuna með tveimur stórum myndum. „Le Figaro" er jafnan talið hægri sinnað blað, og þó það geti verið nokkuð upp og niður eftir blaðamönnum er rétt að það hallast oft mjög langt á hægri síðuna, t.d. hatast það yfirleitt við franska sósíalista og velur þeim hin verstu orð. En greinin byrjaði svona: „Hún var sú eina sem var fær um að taka áskoruninni. Sú eina í fráfarandi ríkisstjórn sem tókst að auka vinsældir sínar þrátt fyrir kreppuna, gjaldþrot bankanna, hrun íslensku krónunnar og hríðvaxandi atvinnuleysi síðustu fjóra mánuðina. Eftir að búið var að fela tveimur konum að stjórna tveimur helstu bönkum landsins, sem nú hafa verið þjóðnýttir, var það enn kona, Jóhanna Sigurðardóttur, sem var kölluð til bjargar. Í þetta skipti til að vera fyrir ríkisstjórninni." Síðan var sagt nokkuð nánar frá sósíaldemókratanum Jóhönnu Sigurðardóttur og ferli hennar gegnum tíðina. Hún var talin vera „meðal þeirra þingmanna sem hefðu mesta reynslu", og frá því skýrt að hún hefði jafnan „barist gegn þeirri spillingu og frændahyglingu sem græfi undan íslensku þjóðfélagi". Henni var þannig lýst, að hún væri „vinnusöm, trygg sínum hugsjónum og mjög mannleg, því virtu hana allir", og var því bætt við að samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum bæru 73 af hundraði Íslendinga nú traust til hennar. Í nokkuð ítarlegri frásögn af ferli hennar var sérstaklega minnst á hin fleygu orð: „Minn tími kemur", sem væru nú orðin orðskviður á Íslandi og letruð á boli í þúsundatali. Þegar ég var hálfnaður með greinina varð mér ósjálfrátt á að snúa blaðinu við til að fullvissa mig um að það væri í rauninni „Le Figaro" sem ég var að lesa. Stuttu áður birtist grein af sama tagi í blaði þar sem maður á frekar von á slíkum skrifum, í vinstri blaðinu „Libération". Hún var heil opna með þremur stórum myndum, og var þar einkum lögð áhersla á þátt kvenna í þeim atburðum sem eru að gerast á Íslandi, eins og reyndar var líka minnst á í „Le Figaro". Fyrir þessari jákvæðu umfjöllun eru vafalaust margar ástæður, og má ekki síst nefna þá hundaheppni að hinir svokölluðu „útrásarvíkingar" munu aldrei hafa komist til þess að leika sínar ámátlegu listir í Frakklandi, og Frakkar þekkja þá ekki nema af óljósri afspurn, líkt og Íslendingar þekkja mafíuna í Sikiley. Þar í landi á því enginn um sárt að binda þeirra vegna. Hins vegar þekkja Frakkar nú mætavel til „útrásarvíkinga" af allt öðru tagi, þá einu sem gætu verðskuldað að bera slíkt nafn, ef vondir menn hefðu ekki orðið til að sverta það. Þessir menn eru Arnaldur Indriðason, Björk, Sigur Rós, Erró og ýmsir aðrir rithöfundar og listamenn sem of langt væri að telja. Og fyrir þeim bera Frakkar mikla virðingu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Á Íslandi hafa menn oft spurt mig hvernig franskir fjölmiðlar fjalli um ástandið á skerinu, um bankahrunið, kreppuna og allt það sem siglt hefur í kjölfar hennar, og hvernig þeim liggi yfirleitt orð til Mörlandans; eru þessar spurningar jafnan bornar fram með miklum áhyggjutón og titringi í röddinni. En ég get ekki annað en komið þessum mönnum á óvart með því að segja þeim að um mál Íslendinga á síðustu tímum hafi fjölmiðlar í Frakklandi, að ég held allir sem einn, fjallað af mikilli samúð og skilningi, og jafnan verið harla velviljaðir í garð landans. Sú mynd sem þar er dregin upp af Íslendingum er stundum svo jákvæð og hugljúf að manni finnst að það hálfa væri nóg. Um leið og bankarnir hrundu og stjórnvöld tóku yfir var rækilega skýrt frá þeim tíðindum í Frakklandi, en eins og ástandið var þá í fjármálum heimsins kom þetta engum á óvart, það virtist nokkuð eðlilegt. Hins vegar var eins og fjölmiðlarnir leiddu alveg hjá sér að fjalla um brambolt Breta, ásakanir þeirra á hendur Íslendingum og harkalegar aðgerðir þeirra, a.m.k. heyrði ég ekkert um það og ég varð jafnframt var við að þótt mjög margir vissu um kreppuna á Íslandi og spyrðu mig um hana með áhyggjusvip virtist engum vera kunnugt um þátt Englendinga í málinu. Eftir þetta birtust langar greinar um Ísland í frönskum blöðum, þar var sagt frá aðdraganda hrunsins og stöðunni eftir það; bellibrögð „útrásarvíkinganna" svokölluðu voru tíunduð og lýst reiði almennings í þeirra garð, en Íslendingar sem slíkir voru hins vegar firrtir allri ábyrgð á gerðum þeirra. Frönsku fjölmiðlarnir höfðu fréttamenn á staðnum, aðrir voru einnig sendir á vettvang, þeir lýstu andrúmsloftinu í Reykjavík og höfðu viðtöl við menn af ýmsu tagi, m.a. leigubílstjóra sem harmaði að Íslendingar skyldu ekki eiga fallöxi eins og Frakkar, oft hefði verið þörf en nú væri nauðsyn. En franski fréttamaðurinn var hræddur um að fallöxin kynni nú að vera ryðguð af alllöngu notkunarleysi, því væru ýmis tormerki á menningarsamstarfi á því sviði. Sem dæmi um þessi skrif má kannske nefna grein sem birtist í „Le Figaro" rétt eftir valdatöku nýju stjórnarinnar og teygði sig yfir alla baksíðuna með tveimur stórum myndum. „Le Figaro" er jafnan talið hægri sinnað blað, og þó það geti verið nokkuð upp og niður eftir blaðamönnum er rétt að það hallast oft mjög langt á hægri síðuna, t.d. hatast það yfirleitt við franska sósíalista og velur þeim hin verstu orð. En greinin byrjaði svona: „Hún var sú eina sem var fær um að taka áskoruninni. Sú eina í fráfarandi ríkisstjórn sem tókst að auka vinsældir sínar þrátt fyrir kreppuna, gjaldþrot bankanna, hrun íslensku krónunnar og hríðvaxandi atvinnuleysi síðustu fjóra mánuðina. Eftir að búið var að fela tveimur konum að stjórna tveimur helstu bönkum landsins, sem nú hafa verið þjóðnýttir, var það enn kona, Jóhanna Sigurðardóttur, sem var kölluð til bjargar. Í þetta skipti til að vera fyrir ríkisstjórninni." Síðan var sagt nokkuð nánar frá sósíaldemókratanum Jóhönnu Sigurðardóttur og ferli hennar gegnum tíðina. Hún var talin vera „meðal þeirra þingmanna sem hefðu mesta reynslu", og frá því skýrt að hún hefði jafnan „barist gegn þeirri spillingu og frændahyglingu sem græfi undan íslensku þjóðfélagi". Henni var þannig lýst, að hún væri „vinnusöm, trygg sínum hugsjónum og mjög mannleg, því virtu hana allir", og var því bætt við að samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum bæru 73 af hundraði Íslendinga nú traust til hennar. Í nokkuð ítarlegri frásögn af ferli hennar var sérstaklega minnst á hin fleygu orð: „Minn tími kemur", sem væru nú orðin orðskviður á Íslandi og letruð á boli í þúsundatali. Þegar ég var hálfnaður með greinina varð mér ósjálfrátt á að snúa blaðinu við til að fullvissa mig um að það væri í rauninni „Le Figaro" sem ég var að lesa. Stuttu áður birtist grein af sama tagi í blaði þar sem maður á frekar von á slíkum skrifum, í vinstri blaðinu „Libération". Hún var heil opna með þremur stórum myndum, og var þar einkum lögð áhersla á þátt kvenna í þeim atburðum sem eru að gerast á Íslandi, eins og reyndar var líka minnst á í „Le Figaro". Fyrir þessari jákvæðu umfjöllun eru vafalaust margar ástæður, og má ekki síst nefna þá hundaheppni að hinir svokölluðu „útrásarvíkingar" munu aldrei hafa komist til þess að leika sínar ámátlegu listir í Frakklandi, og Frakkar þekkja þá ekki nema af óljósri afspurn, líkt og Íslendingar þekkja mafíuna í Sikiley. Þar í landi á því enginn um sárt að binda þeirra vegna. Hins vegar þekkja Frakkar nú mætavel til „útrásarvíkinga" af allt öðru tagi, þá einu sem gætu verðskuldað að bera slíkt nafn, ef vondir menn hefðu ekki orðið til að sverta það. Þessir menn eru Arnaldur Indriðason, Björk, Sigur Rós, Erró og ýmsir aðrir rithöfundar og listamenn sem of langt væri að telja. Og fyrir þeim bera Frakkar mikla virðingu.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun