Viðskipti erlent

Segir Actavis íhuga að búta félagið niður fyrir sölu

Bloomberg fréttaveitan segist hafa heimildir fyrir því að eigendur Actavis íhugi nú að búta félagið niður og selja það í pörtum. Slíkt geti verið auðveldara en að selja félagið í heilu lagi.

Önnur umferð í sölumeðferð Actavis er nú að hefjast en samkvæmt fréttinni á Bloomberg bárust nokkur tilboð í félagið í síðustu viku. Tilboðin hljóðuðu upp á bæði fé og hlutabréf.

Fram kemur að hugmynd sé uppi um að starfsemi Actavis í Bandaríkjunum verði seld sérstaklega.

Það er Merrill Lynch sem sér um ráðgjöf við sölumeðferðina á Actavis en talið var í fyrstu að hægt yrði að fá allt að 6 milljarða evra eða um 860 milljarða kr. fyrir félagið. Hinsvegar er áhvílandi á félaginu lán frá Deutsche Bank upp á um 5 milljarða evra.

Bloomberg telur að raunsærra verð fyrir Actavis í dag liggi á bilinu 4-4,5 milljarðar evra miðað við erfiðar markaðsaðstæður í heiminum þessa stundina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×