Viðskipti erlent

Baugsmenn stofna nýtt félag í Bretlandi

Forstjórar Baugs í Bretlandi, þeir Gunnar Sigurðsson og Don McCarthy, hafa stofnað nýtt félag í Bretlandi undir nafninu Tecamol. Jón Ásgeir Jóhannesson er sagður tengjast félaginu.

Í frétt um málið á vefsíðu Retail Week segir að upphaflega nafnið á félaginu hafi átt að vera Carpe en það var skráð í firmaskrá Bretlands þann 25. febrúar s.l.

Don McCarthy segir í samtali við Retail Week að félaginu sé ætlað að starfa sem ráðgafi í breska verslunargeiranum en einnig muni eignakaup og stofnun fyrirtækja verða á dagskrá Tecamol.

"Við viljum halda áfram," segir McCarthy. "Við munum fylgjast með markaðinum og bíða átektar."

Á vefsíðunni segir að ekki sé ljóst hvaðan fjármagn til eignakaupa af hálfu Tecamol komi eða hvort þeir félagar ætli að fá eitthvað af fyrrum eignum Baugs aftur frá bönkunum.

Tecamol er skráð til húsa í Bond Street í London, á skrifstofum Watches of Switzerland sem er hluti af Aurum sem áður voru í eigu Baugs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×