Serbneski sóknarmaðurinn Danijel Ljuboja hefur líklega leikið sinn síðasta leik fyrir þýska liðið Stuttgart. Hann hefur verið settur í agabann af félaginu út leiktíðina og mun aðeins æfa og leika með varaliðinu.
Stuttgart vill ekki gefa út hvað Ljuboja gerði af sér en þetta er í annað sinn á tímabilinu sem hann er settur út úr liðinu vegna agavandamála.
Aðeins sex mánuðir eru eftir af samningi Ljuboja við Stuttgart og því líklegt að hann leiki ekki meira með félaginu. „Það átti sér stað atvik sem ég sætti mig ekki við. Ég ætla þó ekki að tala illa um Ljuboja. Ef hann tekur sig í naflaskoðun gæti ákvörðunin verið endurskoðuð," sagði Markus Babbel, þjálfari Stuttgart.