Hálfbróðirinn Gerður Kristný skrifar 21. desember 2009 06:00 Það bar til um þessar mundir að sérsveit ríkislögreglustjóra og öflugt lögreglulið var beðið um að koma hið snarasta í Bústaðahverfið. Þar hafði sést til manns með byssu. Komið var að opnum dyrum á hvítu húsi og þar sem lögreglan hafði áður þurft að hafa afskipti af húsráðanda þar á bæ fannst henni líklegt að hann væri byssumaðurinn. Í stað þess að ryðjast inn öskrandi með vopnin á lofti eins og haft er til siðs í útlenskum sjónvarpsþáttum dró einn lögreglumannanna upp símann sinn og sló á þráðinn til heimilisföðurins. Nokkuð var liðið á morguninn en þó reyndist maðurinn heima við. Hann var óðara beðinn um að koma út með hendur á lofti, sem hann og gerði. Þegar maðurinn birtist úti á stétt reyndist hann hvítklæddur og með mikinn kross um hálsinn. Athygli vakti líka hvað maðurinn var brúnn á hörund, eins og hann væri vanari loftslagi suðlægari slóða en íslenska garranum. Þegar lögreglan fór þess á leit við manninn að hann legðist í jörðina neitaði hann og lái honum hver sem vill. Svona sagðist manninum frá í sjónvarpsfréttunum á miðvikudagskvöldið: „Ég var nú ekki alveg á því máli, þar sem maður er nú í hvítu dressi og svona, með skartið á sér sko. Þannig að þeir tóku mig eiginlega og sneru mig niður. Það er ekki eins og maður hafi mikið að segja gegn vopnuðum gaurum." Kannski hefði hann ekki hikað við að taka á móti hefði lögreglan skilið dótaríið eftir heima. Engin ástæða heldur til að halda neitt annað því maðurinn minnir óneitanlega á hálfbróður Lisbethar Salander, hann Ronald Niedermann, sem er ónæmur fyrir sársauka. En hvítklæddi og krossiprýddi maðurinn reyndist síðan bara heita Jón. Þetta er samt ekki bara einhver Jón því hann hefur viðurnefnið „stóri" í undirheimunum - og greinilega yfirheimunum líka fyrst ég bý yfir þessum upplýsingum. Jón er stytting á nafninu Jóhannes sem kemur upphaflega úr hebresku og þýðir „Guð er náðugur". Og Jón slapp svo sannarlega með skrekkinn að þessu sinni. Byssan reyndist vasaljós sem meindýraeyðir nokkur hafði verið með á vappi nálægt húsinu í leit að rottu. Ég ætla að skima vel eftir fréttum af honum Jóni stóra í framtíðinni og vera vakandi yfir því hvort yfirvöld haldi áfram að áreita alsaklausan manninn, sér í lagi hef ég í hyggju að vera á vaktinni þegar líða tekur að páskum. Gleðileg jól! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Halldór 16.11.2024 Halldór Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Á að vera landbúnaður á Íslandi? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Dagur íslenskrar tungu 2024: Væntumþykja í 60 ár Eva María Jónsdóttir Skoðun Miðflokkurinn stendur vörð um bændur Högni Elfar Gylfason Skoðun Krónur, evrur og fullveldi Bjarni Benediktsson Skoðun
Það bar til um þessar mundir að sérsveit ríkislögreglustjóra og öflugt lögreglulið var beðið um að koma hið snarasta í Bústaðahverfið. Þar hafði sést til manns með byssu. Komið var að opnum dyrum á hvítu húsi og þar sem lögreglan hafði áður þurft að hafa afskipti af húsráðanda þar á bæ fannst henni líklegt að hann væri byssumaðurinn. Í stað þess að ryðjast inn öskrandi með vopnin á lofti eins og haft er til siðs í útlenskum sjónvarpsþáttum dró einn lögreglumannanna upp símann sinn og sló á þráðinn til heimilisföðurins. Nokkuð var liðið á morguninn en þó reyndist maðurinn heima við. Hann var óðara beðinn um að koma út með hendur á lofti, sem hann og gerði. Þegar maðurinn birtist úti á stétt reyndist hann hvítklæddur og með mikinn kross um hálsinn. Athygli vakti líka hvað maðurinn var brúnn á hörund, eins og hann væri vanari loftslagi suðlægari slóða en íslenska garranum. Þegar lögreglan fór þess á leit við manninn að hann legðist í jörðina neitaði hann og lái honum hver sem vill. Svona sagðist manninum frá í sjónvarpsfréttunum á miðvikudagskvöldið: „Ég var nú ekki alveg á því máli, þar sem maður er nú í hvítu dressi og svona, með skartið á sér sko. Þannig að þeir tóku mig eiginlega og sneru mig niður. Það er ekki eins og maður hafi mikið að segja gegn vopnuðum gaurum." Kannski hefði hann ekki hikað við að taka á móti hefði lögreglan skilið dótaríið eftir heima. Engin ástæða heldur til að halda neitt annað því maðurinn minnir óneitanlega á hálfbróður Lisbethar Salander, hann Ronald Niedermann, sem er ónæmur fyrir sársauka. En hvítklæddi og krossiprýddi maðurinn reyndist síðan bara heita Jón. Þetta er samt ekki bara einhver Jón því hann hefur viðurnefnið „stóri" í undirheimunum - og greinilega yfirheimunum líka fyrst ég bý yfir þessum upplýsingum. Jón er stytting á nafninu Jóhannes sem kemur upphaflega úr hebresku og þýðir „Guð er náðugur". Og Jón slapp svo sannarlega með skrekkinn að þessu sinni. Byssan reyndist vasaljós sem meindýraeyðir nokkur hafði verið með á vappi nálægt húsinu í leit að rottu. Ég ætla að skima vel eftir fréttum af honum Jóni stóra í framtíðinni og vera vakandi yfir því hvort yfirvöld haldi áfram að áreita alsaklausan manninn, sér í lagi hef ég í hyggju að vera á vaktinni þegar líða tekur að páskum. Gleðileg jól!
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun