Viðskipti erlent

Toyota spáir miklu tapi

Japanski bílaframleiðandinn Toyota gerir ráð fyrir að tapa 450 milljörðum jena, jafnvirði rúmlega 560 milljarða króna, vegna samdráttar á bílamarkaði á síðasta ári. Þetta er þrisvar sinnum meira en fyrri spá bílaframleiðandans hljóðaði upp á.

Síðasta spá var gefin út í enda síðasta árs.

Þetta verður jafnframt fyrsta tap bílaframleiðandans í 70 ár.

Tvennt kemur til, að sögn breska ríkisútvarpsins. Bæði hefur efnahagskreppan valdið því að færri skipta gamla bílnum út fyrir nýjan auk þess sem styrking jensins gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur dregið úr útflutningi.

Miklar hagræðingaraðgerðir eru boðaðar í Toyota-veldinu, bæði hafa vaktir verið skornar niður við framleiðslulínur og starfsdegi breytt á fyrsta ársfjórðungi. Þetta jafngildir því að öllum verksmiðjum Toyota í Japan verði lokað í hálfan mánuð samtals á tímabilinu janúar til mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×