Handbolti

Norðmenn eiga enn möguleika á sæti í undanúrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Noregur tapaði fyrir Suður-Kóreu um helgina.
Noregur tapaði fyrir Suður-Kóreu um helgina. Mynd/AP

Noregur tapaði sínum fyrsta leik á HM í handbolta kvenna í Kína um helgina en á þó enn möguleika á sæti í undanúrslitunum.

Þórir Hergeirsson er landsliðsþjálfari Noregs sem tapaði fyrir Suður-Kóreu á laugardaginn, 28-27, eftir að hafa verið með eins marks forystu í hálfleik, 14-13.

Norðmenn réttu þó úr kútnum með öruggum sigri á Kína í gær, 34-19.

Noregur leikur í síðari milliriðlinum en tvö efstu liðin úr hvorum milliriðli komast áfram í undanúrslitin.

Spánverjar eru efstir í riðlinum með sjö stig og eru öruggir með sæti í undanúrslitum. Norðmenn þurfa nú að vinna Spánverja á morgun til að tryggja sér sömuleiðis sæti í undanúrslitunum eða þá treysta á að Rúmenía vinni Suður-Kóreu.

Rúmenar eru í fjórða sæti riðilsins með fjögur stig og eiga ekki lengur möguleika á sæti í undanúrslitunum. Florentina Stanciu, lék í 30 mínútur er Rúmenía vann Kína á laugardaginn, 40-19, og varði sex skot í leiknum.

Rúmenía tapaði svo í gær fyrir Spánverjum naumlega, 26-25, og varði Stanciu annað tveggja vítaskota sem hún fékk að spreyta sig við í leiknum.

Spánn er í efsta sæti riðilsins með sjö stig, Noregur er með sex og Suður-Kórea fimm fyrir lokaumferð milliriðlakeppninnar sem fer fram á morgun.

Mikil spenna er í fyrri milliriðlinum en þar eru þrjú lið efst og jöfn með sex stig fyrir lokaumferðina - Rússland, Frakkland og Danmörk.

Danir og Rússar mætast innbyrðis í lokaumferðinni á morgun en Frakkland mætir Austurríki sem er með tvö stig í riðlinum, rétt eins og Angóla og Þýskaland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×